BM-Vallá svarar fyrirspurn Þjóðleikhússtjóra

BM-Vallá hefur svarað erindi Stefáns Baldurssonar þjóðleikhússtjóra, sem hann sendi í morgun og óskaði eftir upplýsingum um viðskipti byggingarnefndar Þjóðleikhússins við fyrirtækið. Fram kemur í svarinu að pantaður var svartur óðalsstein og svartur óðalskantsteinn þann 11. maí. Árni Johnsen formaður byggingarnefndarinnar kom og sótti afhendingarseðlilinn og pantaði sjálfur utanaðkomandi vörubíl til flutnings vörunnar og hafði BM-Vallá engar upplýsingar um notkunarstað vörunnar.

Upplýsingarnar frá BM-Vallá eru eftirfarandi: 1. Þann 11. maí sl. voru pantaðar vörur í reikning byggingarnefndar Þjóðleikhúss að fjárhæð 160.978 kr. m/vsk. Um er að ræða svartan óðalsstein og svartan óðalskantstein skv. meðfylgjandi afritum af gögnum auk skilagjalds fyrir stórsekki sem notaðir voru undir vöruna. 2. Á reikning og afhendingarseðil er skráður afhendingarstaður "Sótt" og var varan því afhent á lagersvæði okkar. BM Vallá hefur því engar upplýsingar um notkunarstað vörunnar. Árni Johnsen kom og sótti afhendingarseðilinn og pantaði sjálfur utanaðkomandi vörubíl til flutnings vörunnar. 3. Árni Johnsen hefur ekki í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins óskað eftir viðbótarfyrirgreiðslu eða pantað vörur eftir að fjölmiðlar vöktu athygli á kaupunum. Með bréfinu fylgir afrit af upphaflegum reikningi, sem stílaður er á byggingarnefnd Þjóðleikhússins, þar sem fram kemur að um 330 steina er að ræða, sem samtals kosta 147 þúsund krónur, auk skilagjalds vegna sjö stórsekkjja, samtals 14 þúsund krónur. Þá kemur fram að 28. maí var sex sekkjum skilað og 12 þúsund króna skilagjald kreditfært á Árna Johnsen.
mbl.is