Framkvæmt fyrir 25 milljónir á árinu

Samkvæmt sundurliðuðu verkyfirliti frá Framkvæmdasýslu ríkisins um kostnað vegna framkvæmda við Þjóðleikhúsið hefur ríflega 25 milljónum króna verið varið það sem af er árinu til ýmiskonar endurbóta og framkvæmda við húsið. Framkvæmdasýslan hefur sent Morgunblaðinu yfirlit Þjóðleikhússins fyrir árin 1999, 2000 og 2001 og þar kemur fram að öll árin er Ístak hf. langstærsti verktakinn.

Skýringar við einstaka kostnaðarliði á verkyfirlitinu eru ekki miklar, en þó kemur fram að í lok fyrra mánaðar hafi t.d. verið fjárfest í hljóðkerfi í aðalsal fyrir 3,3 milljónir króna og keyptir óðalsteinar fyrir tæplega 161 þúsund krónur. Þá eru fjórir liðir, ýmis viðhaldsvinna og frágangur í kjallara, skráð á nafn Ístaks hf., samtals að upphæð ríflega 12 milljónir króna.

Fyrir árið 2000 stendur í bókhaldi Framkvæmdasýslunnar, að Þjóðleikhúsið hafi greitt Árna Johnsen um 323 þúsund krónur í nefndarlaun, en auk þess Ístaki 28,3 milljónir kr. vegna ýmissa þátta, svo sem leikmunadeildar og sviðs. Aukinheldur eru undir kostnaðarliðnum veitingar vegna bygginganefndarfunda nóvember 1999 til október 2000 greiddar 169 þúsund kr. til fyrirtækisins Forum ehf.

Alls var kostnaður vegna framkvæmda Þjóðleikhússins samkvæmt verkyfirliti Framkvæmdasýslunnar fyrir árið 2000 því 31,1 milljón kr.

Fyrir árið 1999 greiddi Þjóðleikhúsið alls um 16 milljónir króna vegna ýmissa framkvæmda og viðhalds. Þar af eru skráðar 130 þúsund krónur á Árna Johnsen fyrir verkefnisstjórn og meðal annarra kostnaðarliða má nefna greiðslur til Ístaks hf. vegna efnis og vinnu fyrir 2,7 milljónir.

Umrædd þrjú ár var verktakavinna vegna framkvæmda eða viðhaldsvinnu við Þjóðleikhúsið, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, sjaldan eða aldrei boðin út og Ístak var öll árin stærsti einstaki verktakinn. Heildarfjárhæð fyrir árin tvö og hálf nemur alls 76,2 milljónum króna og þar af námu greiðslur til Ístaks hf. 43 milljónum eða 56% af heildarfjárhæðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert