Finn fyrir ótrúlegum stuðningi fólks

Árni Johnsen.

Árni Johnsen.
mbl.is

Árni Johnsen alþingismaður segist finna fyrir miklum stuðningi fólks í kjölfar þeirra ásakana sem á hann hafa verið bornar. Stuðningurinn sé ekki síst úr hans kjördæmi.

Gísli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Garðheima, segir að Árni Johnsen alþingismaður hafi í byrjun þessa mánaðar keypt þéttidúk í Garðheimum í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Dúkurinn hafi kostað um 173 þúsund krónur. Hann segir að þessi dúkur hafi m.a. verið notaður til viðgerða á flötum þökum. Hann segir að Árni hafi sjálfur sótt dúkinn og kveðst ekki hafa ástæðu til að ætla annað en að hann hafi farið til Þjóðleikhússins.

Segir dúkinn vera í Þjóðleikhúsinu

Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri segir að rætt hafi verið um að gera við eystri hlið Þjóðleikhússins en lekið hafi inn á smíðaverkstæði leikhússins frá bílastæði. Um það hafi verið rætt að nota dúk við þessa viðgerð, en það hafi verið gert áður með góðum árangri. Þessar framkvæmdir séu hins vegar ekki hafnar og kveðst Stefán ekki vita hvar þessi dúkur sé niður kominn.

Árni Johnsen sagði eins og Stefán að fyrirhugað væri að fara í þessa viðgerð í sumar og þess vegna hefði dúkurinn verið keyptur. Framkvæmdir hefðu tafist, en dúkurinn væri í Þjóðleikhúsinu eða í geymslu í húsi úti í bæ. Hann kvaðst telja að húsvörður Þjóðleikhússins gæti bent á hvar dúkinn væri að finna. Rafn Gestsson húsvörður sagði í samtali við Morgunblaðið að dúkurinn væri í geymslu á vegum safnsins og myndi væntanlega vera notaður til viðgerða á leikhúsinu síðar.

Þakrennur hluti af pöntun til Árna

Stefán Logi Haraldsson, framkvæmdastjóri Vírnets hf. í Borgarnesi, staðfesti í gær að fyrirtækinu hefði borist pöntun fyrir nokkrum dögum frá BYKO á þakrennum. Pöntunin hefði verið í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Hann sagði að um hefði verið að ræða sérpantaðar rennur og hefði Vírnet gert pöntun á rennunum hjá birgi erlendis. Í fyrradag hefðu rennurnar hins vegar verið afpantaðar.

Árni sagði að rennurnar hefðu verið hluti af pöntun sem hann gerði hjá BYKO. Pöntunin hefði verið gerð vegna framkvæmda við hús hans. Fyrir misskilning hefði þessi pöntun verið skráð á byggingarnefnd Þjóðleikhússins.

"Það er kannski ágætt að fara yfir þetta enn einu sinni. Þegar ég ræddi við sölumann BYKO talaði ég annars vegar um að ef til viðskipta við byggingarnefnd Þjóðleikhússins kæmi þá myndi ég vita það í fyrsta lagi í lok júlí. En ég pantaði ekkert efni fyrir hönd nefndarinnar. Ég pantaði hins vegar byggingarefni fyrir sjálfan mig um þetta leyti. Ég óskaði eftir að gera skuldina upp í einu lagi og vegna þess að ég keypti efni í fleiri en einu lagi þá fór skuldin inn á biðreikning. Ég hef lengi verið með reikning í BYKO. Þetta var alveg aðskilið en þarna verður hins vegar einhver misskilningur þannig að viðskiptum mínum og hugsanlegum viðskiptum við byggingarnefnd Þjóðleikhúsið er ruglað saman," sagði Árni.

Árni sagðist aldrei hafa afpantað rennurnar. BYKO hlyti að hafa gert það.

Árni sagðist ekki vilja bregðast við orðum menntamálaráðherra sem sagði m.a. í gær að Árni hefði brugðist trausti sínu. "Ég skil vel hans orð. Ég vona hins vegar að það sé ekki búið að taka mig af lífi eins og mér virðist að sumir vilji helst gera. Mér urðu á mistök og það er erfitt að standa í þessum sporum og sitja uppi með svona klúður. Þetta var ekki illa meint og það var aldrei ætlunin að þessir margumræddu kantsteinar yrðu borgaðir af byggingarnefnd Þjóðleikhússins."

Árni kvaðst finna fyrir miklum stuðningi við sig. "Ég finn fyrir ótrúlegum stuðningi þrátt fyrir einhliða uppsetningu fjölmiðla, sérstaklega sjónvarps- og útvarpsstöðva, á þessu máli. Ég hef fengið ótrúlega hlýjar kveðjur og símhringingar frá líklega á annað hundrað konum og körlum. Þetta eru símtöl sem koma víða af landinu, en mest úr mínu kjördæmi. Þetta er frá ólíklegasta fólki, mér kunnu og ókunnu," sagði Árni.

Bæjarráðið í Eyjum ætlar að gera úttekt

Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkti í gær tillögu Þorgerðar Jóhannsdóttur, sem er fulltrúi minnihlutans í ráðinu, að fela löggiltum endurskoðanda bæjarsjóðs, svo og kjörnum skoðunarmönnum að kanna hvort Árni Johnsen, fyrsti þingmaður Suðurlandskjördæmis, hefði með einhverjum hætti haft með höndum fjárhagsleg umsýslustörf fyrir hönd bæjarsjóðs Vestmannaeyja og stofnana hans vegna verklegra framkvæmda eða annarra þátta sem snerta útgjöld úr bæjarsjóði og stofnunum. Í greinargerð með tillögunni er vísað til þess að forsætisráðherra hafi sagt við fjölmiðla að nauðsynlegt væri að fara ofan í alla þætti sem snúa að umsýslustörfum þingmannsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »