Þéttidúkur sagður hafa verið í Eyjum

Þéttidúkur sem Árni Johnsen keypti í byrjun mánaðarins í nafni bygginganefndar Þjóðleikhússins var sendur til Vestmannaeyja í síðustu viku en til baka í fyrradag, að því er segir í DV í dag. Bílstjóri sem sótti dúkinn á vöruflutningamiðstöð skýrir frá því í samtali við blaðið að hann hafi fengið leiðbeiningar og fyrirmæli frá Árna um að aka honum í geymslu í Gufunesi.

Samkvæmt frétt DV var dúkurinn sendur á vöruflutningamiðstöðina Flytjanda fyrir milligöngu flutningaþjónustu í Vestmannaeyjum. Þangað sótti bíll frá prentsmiðju í Kópavogi dúkinn og segir bílstjórinn að honum hafi verið sagt að sækja pakka fyrir þingmann á vöruflutningamiðstöðina. Skömmu eftir að pakkinn var kominn í bílinn hafi síminn hringt og þar hafi verið Árni Johnsen sem beðið hafi sig að fara með dúkinn og fleiri vörur í sendingunni í geymslu á Gufunesi, segir í DV. Þegar þangað hafi verið komið hafi beðið eftir honum maður sem tók við vörunni. Ekki hefur náðst tal af Árna Johnsen í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert