Skjávarpið hættir upplýsingamiðlun á Norður- og Vesturlandi

Nýr eigandi Skjávarpsins, Skjár 1, hefur hætt miðlun staðbundinna upplýsinga og frétta á dreifikerfi Skjávarpsins á Akureyri, Akranesi, Reykjanesbæ og Ísafirði. Hins vegar samanstendur dagskrá Skjávarps enn að hluta til af staðbundnum upplýsingum á Suður- og Austurlandi.

Að sögn Daða Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Skjávarpsins, er dagskrá Skjás 1 send út allan sólarhringinn á dreifikerfi Skjávarps á ofangreindum stöðum. Klukkan 18.30 virka daga hefjast útsendingar Skjás 1 á dreifikerfi Skjávarps á Suðurlandi og standa til kl. þrjú á nóttunni. Utan þess tíma er send út dagskrá Skjávarps. Þá er ennfremur verið að leggja af vef Skjávarps (http://www.skjavarp.is) á Netinu en þar hefur verið birt sama efni og verið hefur á sjónvarpskerfunum. Daði segir að notkun Skjávarps hafi verið mæld sérstaklega á Hornafirði og reynst vera mjög mikil. Hann segir að enn sé ekki fyrirséð með hvaða hætti Skjávarp verði rekið sem upplýsingasjónvarp á þeim stöðum þar sem það hefur náð hvað mestri fótfestu. Þá segir Daði að notkun Skjávarps hafi verið verulega mikið minni á þeim stöðum þar sem útsendingu þess hefur verið hætt. Hann segist ekki hafa fengið mikið af kvörtunum frá þeim svæðum. Mest hafi hann heyrt frá Austfirðingum sem hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir að Skjávarpið skuli draga saman seglin í útsendingum. Daði segir að útsendingar Skjás 1 náist víða jafnskýrt úti á landsbyggðinni og útsendingar RÚV og Stöðvar 2. Aðspurður segir Daði að ekki hafi verið markmið Skjás 1 með kaupunum á Skjávarpi að kaupa dreifikerfið og hætta útsendingum Skjávarps. Það sé vissulega hagur Skjás 1 að koma dagskrá sinni til fleiri landsmanna og markmiðið sé að fjölga þeim stöðum á landinu þar sem útsendingar Skjás 1 nást. Nýverið var öllum tólf starfsmönnum Skjávarps sagt upp. Skjár 1 keypti í júní öll hlutabréf í Skjávarpinu og um síðustu mánaðamót fengu starfsmennirnir uppsagnarbréf. Sex þeirra starfa í höfuðstöðvum Skjávarpsins á Höfn í Hornafirði, einn á Egilsstöðum, einn í Hveragerði, tveir á Akranesi og tveir í Reykjavík. Vefur Skjávarps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert