Allt gjörónýtt hjá kertagerðinni Vaxandi eftir eldsvoðann

Slökkviliðsmenn að störfum við bílskúrinn þar sem kertagerðin var starfandi.
Slökkviliðsmenn að störfum við bílskúrinn þar sem kertagerðin var starfandi. mbl.is/Júlíus

Bílskúr, sem innbygður er í íbúðarhús við Nesveg á Seltjarnarnesi, gjöreyðilagðist í eldi í dag. Kertagerðin Vaxandi hefur verið starfrækt þar, en ljóst er að starfsemin stöðvast í einhvern tíma því allt sem í bílskúrnum var er ónýtt að sögn Jóhannesar Más Jóhannessonar, eins eigenda fyrirtækisins; hráefni og tilbúnar vörur, vélar og tæki. "Það má segja að skúrinn sé fokheldur," sagði Jóhannes í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Kertagerðin Vaxandi hefur verið starfrækt í nokkur misseri. Framleiðsla hefur farið fram í bílskúrnum, svo og námskeið í kertagerð sem fyrirtækið hefur staðið fyrir en verslun fyrirtækisins er rekin á Laugaveginum. Mikill eldur var í bílskúrnum þegar slökkvilið kom á staðinn eftir hádegið. Eldur kviknaði út frá vaxi sem var í potti á eldavél. Bílskúrinn er gjörónýtur sem fyrr segir en húsið slapp að öðru leyti. Engin slys urðu á fólki.
mbl.is