Fjölskylduvænt yfirbragð og þægileg stemmning

Sundlaugin á Akureyri er vinsæll viðkomustaður.
Sundlaugin á Akureyri er vinsæll viðkomustaður. mbl.is

Akureyri breytir um svip um páskahátíðina en að jafnaði streyma mörg þúsund manns til bæjarins þessa daga. Síðustu ár hafa ýmsir þeir sem hagsmuna eiga að gæta sameinast um að auglýsa bæinn og það sem hann hefur upp á að bjóða með yfirskriftinni Páskar á Akureyri og svo verður einnig nú.

Bragi V. Bergmann, talsmaður Veðurguðanna, hóps fyrirtækja í bænum, Akureyrarbæjar og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, sagði að undirbúningur vegna Páska á Akureyri stæði nú sem hæst. "Það hefur lengi tíðkast að fólk komi til Akureyrar um páskana, en nú síðustu ár hefur það heldur aukist enda er sífellt meira í boði. Bæjarbragurinn hefur líka tekið stakkaskiptum, það þarf ekki að fara ýkja mörg ár aftur í tímann þegar allt var lokað og hvergi neina þjónustu að fá þessa daga. Nú er öldin önnur og menn koma ekki lengur að lokuðum dyrum. Veitingastaðir eru opnir alla páskadagana og menn geta fengið margvíslega þjónustu yfir hátíðardagana." Aðsóknarmet í fjallinu og sundlauginni Bragi segir ómögulegt að átta sig á hversu margir gestir sæki bæinn heim um páskana, en ljóst að þeir skipti þúsundum. Til marks um það var sett aðsóknarmet í Sundlaug Akureyrar um páskana í fyrra, en laugina sóttu á bilinu 10 til 12 þúsund gestir. Metaðsókn var einnig að skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli en þar voru um 3.500 manns á páskadag og gestir alls um hátíðina voru á bilinu 10 til 12 þúsund talsins. Bragi segir að nú í ár sé búist við fleira fólki en í fyrra, enda sé nú búið að setja upp nýja fjögurra sæta stólalyftu, Fjarkann í Hlíðarfjalli, en hún er 5 sinnum afkastameiri en sú sem fyrir var. "Það eina sem fólk kvartaði yfir var að biðraðir í lyftuna voru helst til langar, en þær ættu nú nánast að heyra sögunni til og fólk ætti að geta notið skíðaferðarinnar til fulls," sagði Bragi. Skíðasvæði sunnan heiða hafa lítið sem ekkert verið opin í vetur og segir Bragi að það muni eflaust hafa þau áhrif að fleira fólk en ella muni sækja Akureyri heim um páskana. Á síðasta ári var boðið upp á þá nýjung að efna til keppni í samhliða svigi inni í miðjum bæ, í efsta hluta Grófargils og niður að Akureyrarkirkju, og mæltist það vel fyrir. "Við gerum ráð fyrir að halda þessum þætti í dagskránni áfram enda kom fjöldi fólks að fylgjast með og keppnin naut mikilla vinsælda," sagði Bragi. Fjölskylduvænt yfirbragð Flestir þeir sem sækja Akureyri heim um páskana fara sem fyrr segir í Hlíðarfjall og í Sundlaug Akureyrar, en kappkostað er að bjóða upp á dagskrá í bænum síðdegis og á kvöldin. Í fyrra var boðið upp á keppni í hreysti í Íþróttahöllinni og stefnt er að því að halda slíka keppni einnig nú, en áhorfendur voru fjölmargir. Þá má nefna að fyrir og um páskana mun Leikhúskórinn sýna Helenu fögru í Samkomuhúsinu og þá verða stórtónleikar í Íþróttahöllinni á skírdag þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leikur en með henni syngja þau Sigrún Hjálmtýsdóttir og Óskar Pétursson. Fyrir þá sem vilja svo skella sér út á lífið kappkosta veitingamenn að bjóða upp á vinsælar hljómsveitir á veitinga- og danshúsum bæjarins. "Það er almenn og góð samstaða í bænum um að gera hátíðina sem glæsilegasta og það sem einkennir hátíðina er fjölskylduvænt yfirbragð. Langflestir gestanna eru fjölskyldufólk og því er yfirbragðið og stemmningin róleg og þægileg," sagði Bragi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert