Gjöfin er ljósastikan

Gjöfin er dulin í háttum, því sagt er að gjöfin snúi aftur til gefandans, jafnvel margföld. Í heimi gjafarinnar er setningin "Gefið til að öðlast" ekki mótsögn, heldur árangursrík aðferð, þó virðist þurfa að hafa gát á sér í gjafmildinni: "Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín." Matt.7.6. Gjöfina má nálgast frá ýmsum ólíkum sjónarhornum, en hér verður hún skoðuð í ljósi texta úr Biblíunni, þar sem henni er dreift í stuttum setningum. Ef til vill til að leyna hlutverki hennar.

I. Tvær merkar gjafir
Hver gefur son sinn eingetinn?
"Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf." Jóh. 3.16. Þessa er ekki ætlast til af mönnum, samt er til sögn um mann sem Guð reyndi eða freistaði eins og stendur í hinni helgu ritningu. Guð sagði við Abraham: "Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjölunum, sem ég mun segja þér til." 1. Mós. 22.2. Þremur dögum síðar er Abraham reiðubúinn til að gefa Guði einkason sinn. Hann batt son sinn Ísak og lagði upp á altarið, ofan á viðinn. Hann rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum.<7p> Engill Drottins stöðvaði hann áður en hann gat framkvæmt verkið, og tilkynnti að fyrst Abraham var reiðubúinn til að gefa mestu eign/gjöf sína Guði til dýrðar, þá skyldi hann fá ríkulegt endurgjald. Hann sagði: "Fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd." 1. Mós. 22.12. Þúsund síðum síðar í hinni helgu ritningu talar Jesú við niðja Abrahams: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég." Jóh. 8.58. Sagan um fórn Abrahams er feikilega flókin og um hana hafa verið skrifaðar margar bækur. Tilgátan hér er að hún fjalli um gjöfina og að hún kallist á við sögnina um að Guð hafi gefið son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Í sögunni um Abraham hét Guð honum að endurgjalda gjöfina sem sýndi ást hans, og hann gaf niðjum Abrahams síðar sinn eigin einkason. Og lögmál gjafarinnar birtist svo sannarlega í textanum. Hún margfaldast. Gjöf Abrahams gerði gjöf Guðs mögulega, og gjöf Guðs gerði í þessum trúarbrögðum hugmyndina eilíft líf mögulega eða trúanlega. Vart er hægt að ímynda sér gamla testamentið án gjafar Abrahams eða nýja testamentið án gjafar Guðs á einkasyni sínum. Abraham gaf Guði hug sinn og hjarta, Guð gaf niðjum hans einkason sinn. II. "Þegar þú gefur..."
Í texta Nýja testamentisins birtist gjöfin í orðum Jesú og lærisveina hans, og má túlka í þeim ýmislegt um gjöfina. Hún er fremur auðveld í framkvæmd og hver sem er getur lagt stund á hana hvar sem er. Engan geislabaug þarf til að leggja stund á gjöfina, aðeins þarf að grípa tækifærin sem gefast, skynja þörf og uppfylla hana. Það þyngsta við gjöfina á hinn bóginn er að það er ekki vænlegt til vinnings að monta sig af henni. Það er líkt og gjöfin missi mátt sinn ef gefandinn auglýsir gjafmildi sína. Best virðist vera að gleyma henni. Finna má sterkan vitnisburð um þetta: "Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir, svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér." Matt. 6.2-4. Laun gjafarinnar er hægt að reyna að taka út strax, en sé það gert þurrkast gildi gjafarinnar út, líkt og hún hafi aldrei verið gefin. Takist manneskjunni hinsvegar að gefa áreynslulaust, lifir gjöfin áfram ... "Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela." Matt. 6.19. III. Ríkulegir ávextir
Orðskviðirnir varðveita speki sem sýnir að gjöfin á að næra mannleg sambönd: "Sumir miðla öðrum mildilega, og eignast æ meira, aðrir halda í meira en rétt er, og verða þó fátækari. Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka mun sjálfur drykk hljóta." Orðs. 11.25.
Þetta minnir á texta í Nýja testamentinu, þar sem þetta lögmál er ítrekað, og þessar setningar kallast á við þær í orðskviðunum: "Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur." Matt. 13.12. Og Páll postuli heldur áfram í Nýja testamentinu: "Gjafir bera ríkulega ávexti fyrir þá sem gefa ... Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara." 2. Kor.9. IV. Alla björg sína
Að gefa er m.ö.o. ekki það sama og að þurfa að láta eitthvað af hendi úr eigin fórum. Að gefa er að einstaklingur öðlist eitthvað sem hann átti ekki áður.
"Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna. Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga. Þá sagði hann: ,,Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína." Lúk. 21.4. Ekkjan eignaðist mest þennan dag, þótt hún hefði ekki hugmynd um það.
Gjöfin í texta Gamla og Nýja testamentis virðist vera höfuðhugtak, eitthvað sem menn eiga að ástunda, því enginn maður er snauðari en sá sem aldrei gefur. Gjöfin er góðvild og gæfa. Því meira sem manneskjan gefur, því gæfuríkari verður hún. V. Gjöfin á Efsta degi
Jesú bendir á að enginn eigi hrós skilið fyrir að gefa ástvinum sínum og vinum, það er sjálfsagt mál. Um leið og gjafmildin birtist utan hins innsta hrings stækkar hún og verður meiri. Reyndar er hluti fjallræðunnar um gjöfina, hér er tilvitnun í hana og dæmi: "Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?"
Matt. 7:11. Jesú virðist meta sérlega gjafir sem lúta að frumþörfum manna, eins og að gefa þeim að borða sem ekkert eiga að borða. Þegar hann segir svo frá endurkomu sinni á Efsta degi, gefur hann sterklega til kynna að menn verði metnir eftir gjöfum sínum, þær skilja sauðina frá höfrunum. Hún skilur milli feigs og ófeigs á Efsta degi. "Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllum heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín." Matt. 25. 35-36. Þeir sem eru snauðir af gjöfum, hafa haft tækifæri til að gefa allt sitt líf, en ekki notað þau, fá á hinn bóginn harkalegan dóm: "Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín." Matt. 25. 42-43. VI. Gjöf páskanna
"Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf," segir textinn. Páskahátíðin nálgast, en hjá kristnum mönnum er hún til minningar um að sonur Guðs gaf mönnunum líf sitt, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð gaf soninn, sonurinn gaf líf sitt. Mennirnir þurfa aðeins að gefa hver öðrum. VII. Í leynum
Í kaflanum Mikilvægir ritningarstaðir í Biblíuútgáfu Hins íslenska biblíufélags árið 1981 er ekki hægt að greina gildi gjafarinnar. Þar er bent á m.a. friðinn, réttlætið, boðorðin, óðinn um kærleikann, gleðina, óttaleysið, trú, von og kærleikann. Gjöfin birtist ekki í víðkunnum ritningarstöðum. Henni er hvergi óhóflega hampað. Hún er hér og þar, hún er á víð og dreif um textann líkt og ölmusan þarf að vera í leynum. Það dýrmætasta þarf að vera í leynum (líkt og hringurinn í Hringadróttinssögu). Þótt ljósinu sé á þessari síðu beint að gjöfinni, er það aðeins í örskotsstund og ef til vill gleyma þeir sem þetta lesa efninu skjótt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert