Inngangur að hátíð ósýrðu brauðanna

Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir
Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir mbl.is

Gyðingar minnast frelsunar úr þrældómi í Egyptalandi á páskunum og undirbúningur kristinna manna fyrir þessa hátíð hefst á föstunni. Í tilefni þess að páskahátíðin gengur senn í garð hitti Kristín Gunnarsdóttir, sr. Önnu Sigríði Pálsdóttur, prest í Grafarvogssókn, og bað hana að segja frá hvers er verið að minnast á páskum.

Hafðu, Jesú, mig í minni, mæðu og dauðans hrelling stytt. Börn mín hjá þér forsjón finni, frá þeim öllum vanda hritt. Láttu standa á lífsbók þinni líka þeirra nafn sem mitt. Páskar eru stærsta hátíð kristinna manna, upprisuhátíðin. Án upprisuhátíðarinnar væru ekki haldin jól eða aðrar kristnar hátíðir," sagði Anna. "Á páskum fögnum við upprisu Jesú Krists. Við hefjum undirbúning að páskum á föstunni, sem er tími iðrunar og yfirbóta. Það er sá tími, sem varið er til að hugleiða innihald trúar okkar, okkur sjálf og hvar við erum á vegi stödd." Gyðingar halda páskahátíð til að minnast frelsunar úr þrældómi frá Egyptalandi þannig að hátíðin á sér mun lengri sögu en kristnin. Hjá gyðingum er páskahátíðin inngangur að hátíð ósýrðu brauðanna, sem stendur í sjö daga. Þessa viku má aðeins eta ósýrð brauð en Ísraelsmenn borðuðu ósýrð brauð þegar þeir flúðu í skyndi frá Egyptalandi. Líkingarmál
Jesús notaði líkingarmál, sem höfðaði til helgisiða og hugsunar gyðinga. Hann talaði um sig sem brauð lífsins, hið lifandi brauð. ... "Þann mun ekki hungra sem til mín kemur," sagði hann. "Því brauð Guðs er sá sem stígur niður af himnum og gefur heiminum líf."... Þar notar hann samlíkingu við brauðið eða manna, sem féll af himnum yfir fólkið í eyðimörkinni og saddi hungur þess. Fyrir páska var páskalambinu slátrað og fjölskyldur komu saman og snæddu hátíðarmáltíð. "Þess vegna er talað um Jesú Krist, sem lamb Guðs," sagði Anna. "Samkvæmt kristnum skilningi er hann síðasta lambið sem fórnað var fyrir okkur á föstudaginn langa. Hann er lamb guðs, sem ber syndir heimsins. Í stað þess að dæma mennina fyrir að hafa krossfest Krist, þá fyrirgaf Guð þeim syndirnar og reisti soninn upp frá dauðum. Þess vegna fórna kristnir menn aldrei í þeim skilningi sem gyðingarnir gera. Fórnin hefur verið færð." Dymbilvika
Þegar Jesú hélt innreið sína í Jerúsalem en þess er minnst á pálmasunnudag þá er hann á leið til páskahátíðar. Vikan milli pálmasunnudags og páska er kölluð dymbilvika en þá var lengi til siðs að setja trékólf í stað málms í kirkjuklukkur. Hljómur klukknanna var þá þyngri og minnti á atburði vikunnar.
Að kvöldi skírdags snæddi Jesú hefðbundna páskamáltíð með lærisveinum sínum. Það varð síðasta kvöldmáltíðin. Þegar þeir sátu til borðs, þá blessaði hann brauðið og vínið og bauð þeim að gera slíkt hið sama og eta og drekka í hans minningu. Þar með stofnsetti hann það, sem kallað er heilög kvöldmáltíð og er eitt af sakramentum eða leyndardómum kristinnar kirkju. Máltíðin er í raun fullvissa um nærveru og fyrirgefningu Jesú. Að máltíð lokinni fór hann með lærisveinunum í Getsemane-garðinn, þar sem hann baðst fyrir. Hann tók lærisveinana Pétur og syni Sebedusar með sér og sagði við þá; "... Sál mín er hrygg allt til dauða, bíðið og vakið með mér..." En þeir sofnuðu aftur og aftur. Þegar hann hafði lokið bænum sínum komu hermennirnir og tóku hann til fanga. Júdas einn lærisveinanna hafði framselt hann. Daginn eftir á föstudaginn langa, var Jesú, pyntaður, dæmdur til dauða og krossfestur. "Enn í dag er gengin helgiganga eftir Via Dolorosa þ.e. leiðin sem Jesú gekk með krosstréð, úr hallargarði Pílatusar að Golgata hæð," sagði Anna. "Til eru bæði frásagnir guðspjallanna og helgisagnir um hvað gerðist á þeirri leið. Ein þeirra segir frá því er þeir höfðu spottað hann þá færðu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin klæði og leiddu út til að krossfesta hann. Maður nokkur Símon frá Kýreneu átti leið þar hjá og hann neyddu þeir til að bera kross Jesú. Á göngunni fylgdi honum fjöldi fólks, konur og börn og þær grétu. Þá sneri Jesús sér að þeim og sagði; "Jerúsalems dætur grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður, því að sé þetta gjört við hið græna tré, hvað verður um hið visna?" Ennfremur segir helgisögn að kona að nafni Veronika, hafi komið með dúk og þerrað andlit hans og að andlits mynd Jesú hafi þá greypst í dúkinn." Hafðu, Jesú, mig í minni
Í 14. og síðasta versi 30. sálms í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar segir:
Hafðu, Jesú, mig í minni,
mæðu og dauðans hrelling stytt.
Börn mín hjá þér forsjón finni,
frá þeim öllum vanda hritt.
Láttu standa á lífsbók þinni
líka þeirra nafn sem mitt.
Á Golgata hæð var Jesú krossfestur og sitt hvorum megin við hann voru krossfestir tveir ræningjar. "Þarna voru krossfestir dæmdir sakamenn en það tíðkaðist á þessum tíma að á hátíðum bauð keisarinn lýðnum að þeir mættu velja einn sem fengi frelsi," sagði Anna. "Hann bauð þeim að frelsa Jesú í tilefni páskahátíðarinnar en lýðurinn bað um frelsi fyrir Barrabas, dæmdan sakamann." Hermennirnir skiptu með sér klæðum Jesú og köstuðu hlut um kyrtil hans. Eftir að hermenn höfðu fullvissað sig um að Jesú væri dáinn á krossinum kom þar að auðugur maður, Jósef frá Arímaþeu, sem sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú. Hann hafði fengið leyfi keisarans til að vefja líkið líkklæði og leggja í gröf, sem hann átti. Gröfin var hellir og fyrir op hellisins var velt stórum steini. Grundvöllur kristinnar trúar
Þar sem gyðingar óttuðust að líkama Jesú yrði rænt létu þeir hermenn standa vörð um gröfina.
Síðan segir að í dagrenningu á páskadagsmorgun, þegar þær María Magdalena og María móðir Jósefs komu að gröfinni með ilmsmyrsl til að smyrja líkama Jesú, þá sáu þær að steininum hafði verið velt frá. "Þær héldu að Jesú hefði verið tekinn og færður burt en sáu þá líkklæðin í gröfinni og ungan mann í skjannahvítum klæðum, sem sagði þeim að sá sem þær leituðu að væri ekki þar, ..."heldur er hann upprisinn"...," sagði Anna. "Grundvöllur kristinnar trúar er að Jesú hafi risið upp frá dauðum. Þess vegna er páskahátíðin mest allra hátíða. Þess vegna höldum við aðrar kristnar hátíðir svo sem hvítasunnuhátíð, sem er hátíð heilags anda og jól til að minnast fæðingar frelsarans."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert