Halastjarnan Ikeya-Zang á ferð á vesturhimninum

Ikeya-Zhang yfir Joshua Tree-þjóðgarðinum í sunnanverðri Kaliforníu sl. föstudag.
Ikeya-Zhang yfir Joshua Tree-þjóðgarðinum í sunnanverðri Kaliforníu sl. föstudag. mbl.is

Halastjarna sést um þessar mundir á vesturhimninum, en þar er um að ræða stjörnuna Ikeya-Zang. Þar sem hún er ekki mjög björt þarf handsjónauka til að virða hana fyrir sér, samkvæmt upplýsingum frá félaga í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.

Ikeya-Zang er frekar lágt á himni, eða í um 10-15° hæð, nokkuð hægra megin við tunglið og allnokkru neðar á himninum. Nokkurn veginn mitt þar á milli má sjá reikistjörnuna Mars. Með því að skima fram og aftur með handsjónauka ætti að vera auðvelt að finna halastjörnuna. Ikeya-Zhang dregur nafn af stjörnufræðingunum sem fyrstir sáu hana en það átti sér stað 1. febrúar sl. Er talið að hér sé um að ræða sömu halastjörnu og sást frá jörðu árið 1661 en henni var aldrei gefið nafn. Stjarnan sést sem stendur frá því skömmu eftir sólarlag en í apríl mun hún birtast, t.d. í Kaliforníu, skömmu fyrir sólarupprás, en þá verður hún á leið út frá jörðunni og burt frá okkar sólkerfi. Mun hún ekki sjást frá jörðu að nýju fyrr en eftir 341 ár. Á meðfylgjandi mynd má sjá stjörnuna yfir Joshua Tree-þjóðgarðinum í sunnanverðri Kaliforníu sl. föstudag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert