ÚA kaupir frystitogarann Sevryba-2

Í dag var gengið frá samkomulagi Útgerðarfélags Akureyringa hf. við SISL-Sevryba Two Limited um kaup á frystitogaranum Sevryba-2, sem var byggður árið 1998 í Danmörku. Hið nýja skip mun koma í stað frystitogarans Sléttbaks EA-4, sem ÚA hefur frá árinu 1973 gert út sem ísfiskveiðiskip og síðar frystiskip. Kaupsamningurinn er gerður með venjubundnum fyrirvörum.

Frystitogarinn Sléttbakur EA verður settur upp í kaupverð Sevryba-2 og nemur heildarfjárfesting Útgerðarfélags Akureyringa í þessum viðskiptum 680 milljónum króna. Salan á Sléttbaki veldur hvorki sölutapi né söluhagnaði hjá ÚA. Sevryba-2 var smíðaður í Orskov Shipyard í Danmörku árið 1998 og var afhentur eigendum sínum 1. desember sama ár. Skipið er 58 metra langt og 13,5 metra breitt og er aðalvél þess 4.000 hestöfl. Sevryba-2 er nýtískulegt og vel tækjum búið skip til frystingar á bolfiski. ÚA hefur gert Sléttbak EA-4 út í tæplega þrjá áratugi Í fréttatilkynningu frá ÚA segir: "Frystitogarinn Sléttbakur EA-4, sem brátt hverfur úr skipastóli ÚA, var keyptur til Útgerðarfélags Akureyringa hf. frá Færeyjum árið 1973 og hét þá Stella Kristina, en skipið var smíðað í Noregi árið 1968. Sléttbakur var gerður út til ísfiskveiða til ársins 1987, en þá var hann lengdur í Slippstöðinni á Akureyri og honum breytt í frystiskip. Eitt öflugasta bolfiskfrystiskip landsins Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa hf., segir að með kaupum á Sevryba-2 sé verið að fá því sem næst nýtt skip í stað Sléttbaks sem kominn sé til ára sinna og hafi þjónað félaginu vel og lengi. “Við erum að fá öflugra skip inn í okkar flota, sem gerir okkur kleift að stunda þessar veiðar af meiri krafti en áður, enda er hér um að ræða eitt stærsta og öflugasta bolfiskfrystiskip landsins,” segir Guðbrandur Sigurðsson. Stefnt er að því að Útgerðarfélag Akureyringa fái Sevryba-2 afhentan í fyrstu viku aprílmánaðar, en sem stendur er skipið að veiðum við Grænland. Við það er miðað að Sléttbakur verði afhentur nýjum eigendum síðar í vor."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert