Utanríkisráðherra: Forseti rauf hefð með ræðu á ráðstefnu Norðurlandaráðs

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði á Alþingi í morgun að hefð væri fyrir því að forseti Íslands blandaði sér ekki inn í viðkvæm, innlend pólitísk ágreiningsmál. Þetta kom fram þegar þingmenn voru að fjalla um ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta sem hann flutti á ráðstefnu Norðurlandaráðs á mánudag. Halldór sagði ummæli forseta kalla á umræðu og jafnfram sagðist hann vera ósammála mörgu af því að sem fram kom í ræðunni.

Þingmenn voru ekki á eitt sáttir um ágæti ummæla forsetans en hann mælti gegn aðild að Evrópusambandinu. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að Guðmundur Árni Stefánsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði að sér þætti forsetinn vera kominn inn á hættulega braut með því að blanda sér í viðkvæm pólitísk deilumál. Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sagði að sér þætti skrítið að menn gengju af göflunum þegar forsetinn legði sitt af mörkum í Evrópuumræðunni. Halldór sagði að það væri gömul og rík hefð fyrir því að forseti blandaði sér ekki inn í viðkvæm pólitísk deilumál innanlands. „Geri forseti annað, þá hlýtur það að kalla á umræðu. Það hlýtur að kalla á umræðu innanlands eins og t.d. hér. Í þessu tilviki er ljóst að forseti Íslands hefur blandað sér í slíka umræður og á því eru ýmsir gallar að mínu mati. Ég tel að það sé mikilvægt að forsetaembættið sé hafið yfir pólitískt dægurþras. Ef forseti kýs hins vegar að taka þátt í því, þá liggur alveg ljóst fyrir að það kallar á viðbrögð, eins og hér." Halldór sagðist vera ósammála mörgu að því sem forseti sagði á ráðstefnu Norðurlandaráðs „um alþjóðavæðingu, markaðsvæðingu og reyndar ýmsu sem hann sagði um Evrópusambandið sem kemur ekki beint aðild að Evrópusambandinu við. En ég ætla ekki að tjá mig frekar um það að þessu sinni."
mbl.is