Vilja fækka leigubílstjórum

Frami, eitt þriggja félaga leigubílstjóra á höfuðborgarsvæðinu, hefur óskað eftir því við samgönguráðuneytið að endurskoðaður verði fjöldi leyfa til leigubílaaksturs sem í dag eru 570. Telja forsvarsmenn Frama að með minnkandi verkefnum sé nauðsynlegt að fækka leyfum.

Ástgeir Þorsteinsson, formaður Frama, segir brýnt að fækka leyfum þar sem samdráttur hafi ríkt í leiguakstri síðustu misserin. Því hafi verið óskað eftir fundi um málið. Reykjavíkurborg á móti Jóhann Guðmundsson hjá samgönguráðuneytinu segir ósk Frama hafa komið fram snemma í sumar og hafi í framhaldi af henni verið leitað umsagnar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hinna tveggja félaga leigubílstjóra, Andvara og Átaks. Segir hann lítil viðbrögð hafa komið frá sveitarfélögunum, en þrjú sveitarfélög, Bessastaðahreppur, Reykjavík og Seltjarnarnes, hafi lýst sig mótfallin fækkun leyfa. Jóhann segir málið verða rætt á fundi 3. september og hafi verið boðaðir á hann fulltrúar Frama, sveitarfélaga, leigubílastöðva og Vegagerðarinnar, sem sér nú orðið um framkvæmd málaflokksins fyrir hönd samgönguráðuneytisins. Ráðuneytið sér eftir sem áður um útgáfu leyfa, kærumál og fleira. Jóhann segir að síðar verði fulltrúar Átaks og Andvara boðaðir til fundar.

Jón Stefánsson, varaformaður Átaks, sagði að stjórn félagsins hefði ritað samgönguráðuneytinu og óskað eftir því að fulltrúar Átaks sætu fundinn 3. september ásamt fulltrúum Frama. „Á fundinum er meiningin að taka fyrir mál sem varðar alla leigubifreiðastjóra, þ.e. fjölda starfsleyfa á höfuðborgarsvæðinu, og því fráleitt að ekki skuli allir aðilar sem málið varðar vera boðaðir til fundarins,“ segir í bréfi Átaks. Jón segir bílstjóra sammála um að rétt sé að fækka leyfum en spurning sé hvaða aðferð eigi að beita.

mbl.is