Jón Ásgeir segir Sullenberger hafa vísvitandi blekkt lögreglu

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar hann segir einsýnt að Jón Gerald Sullenberger, eigandi Nordica Inc. hafi vísvitandi blekkt lögregluyfirvöld í því skyni að hefja opinbera rannsókn. Jón Ásgeir segir að viðskipti við Sullenberger hafi ekki verið lengur með þeim hætti sem að var stefnt og hann hafi ekki lengur getað treyst honum.

Yfirlýsingin:
„Vegna aðgerða embættis Ríkislögreglustjóra gagnvart Baugi Group hf., stjórn og starfsmönnum fyrirtækisins vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:

Allar greiðslur Baugs Group hf. til Nordica Inc voru samkvæmt reikningum útgefnum af Nordica Inc. sem er alfarið í eigu og stjórnað af Jóni Gerald Sullenberger. Þessar greiðslur, sem samtals hljóðuðu upp á $491.000 og náðu yfir tveggja og hálfs árs tímabil, runnu til uppbyggingar á starfsemi Nordica Inc enda var það mat forsvarsmanna Baugs Group hf. á þeim tíma að samstarf fyrirtækjanna yrði til hagsbóta fyrir Baug Group hf. Þessum viðskiptum var slitið um leið og í ljós kom að frammistaða Nordica Inc stóð ekki undir væntingum. Þar sem skjótt var brugðist við varð fjárhagslegur skaði Baugs Group hf. vegna þessara viðskipta óverulegur.

Baugur Group hf. tengist á engan hátt skemmtibátnum Thee Viking. Hann er í eigu félags áðurnefnds Jóns Gerald Sullenberger, New Viking. Fjárfestingarfélagið Gaumur lánaði Jóni Gerald 38 milljónir króna vegna kaupa á þessum bát, en hefur enn ekki fengið afsal fyrir hlut í New Viking eins og ráðgert var, né fengið fullnægjandi tryggingar fyrir láninu þótt eftir þessu hafi ítrekað verið leitað. Skuld Jóns Gerald við Gaum er skráð í bókhaldi félagsins og hafa endurskoðendur þess staðfest það við embætti Ríkislögreglustjóra.

Þá hefur Jón Gerald Sullenberger tjáð lögregluyfirvöldum að Baugur Group hf. hafi gjaldfært reikning upp á $589.000 í bókhaldi félagsins til hagsbóta fyrir yfirstjórnendur þess. Hið rétta er að umræddur reikningur er kreditreikningur og því færður til tekna hjá fyrirtækinu. Þetta hafa lögregluyfirvöld staðfest við málflutning hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Einsýnt er að Jón Gerald Sullenberger hefur vísvitandi blekkt lögregluyfirvöld í því skyni að hefja opinbera rannsókn vegna málsins.

Eins og sjá má af ofansögðu urðu viðskipti félaga, sem ég er í forsvari fyrir, við Jón Gerald Sullenberger ekki með þeim hætti sem að var stefnt. Traust er undirstaða í öllum viðskiptum og ég gat ekki lengur treyst Jóni Gerald. Viðbrögð hans við því að Baugur Group hf. hætti viðskiptum við Nordica Inc hefur styrkt þetta mat mitt enn frekar. Jón Gerald hefur í samtölum við bæði ættingja mína og starfsfólk þeirra félaga, sem ég veiti forstöðu, haft í hótunum um að skaða bæði þessi félög og mig persónulega. Hann hefur sömuleiðis reynt að koma sögusögnum um viðskipti okkar á framfæri við fjölmiðla á Íslandi en ekki haft erindi sem erfiði.

Baugur Group hf., stjórnendur þess, lögmenn og endurskoðendur, hefðu með einföldum hætti getað hrakið ávirðingar Jóns Gerald ef embætti Ríkislögreglustjóra hefði viljað kanna sannleiksgildi þeirra. Í stað þess að leita skýringa ruddist flokkur lögreglumanna í höfuðstöðvar Baugs Group hf., lagði hald á bókhaldsgögn og færði stjórnendur fyrirtækisins til yfirheyrslu.

Í ljósi þess að Baugur er enn eitt íslenska fyrirtækið á síðustu tólf mánuðum sem verður fyrir sambærilegri aðför ríkisvaldsins ættum við hjá Baugi Group hf. ef til vill að láta þetta yfir okkur ganga þegjandi og hljóðalaust. En einmitt sökum þess hversu algengt þetta er orðið er ástæða til að mótmæla. Hjá Baugi Group hf. starfa um 4.000 manns. Félagið veltir um 50 milljörðum króna. Um tvö þúsund Íslendingar eiga hlut í félaginu. Baugur Group hf. er mikilvægur þáttur í íslensku samfélagi. Það er því óásættanlegt að embætti Ríkislögreglustjóra, sem starfar í umboði okkar allra, skuli í skjóli rakalausra fullyrðinga Jóns Gerald Sullenberger setja í hættu hagsmuni starfsmanna, hluthafa og viðskiptavina Baugs Group hf.

Baugur Group hf. starfar á alþjóðlegum markaði. Áhrif af aðgerðum embættis Ríkislögreglustjóra hafa því skaðað hagsmuni og orðspor félagsins víðar en á Íslandi, ekki síst í Bretlandi þar sem áform um yfirtökutilboð í samstarfi við Philip Green urðu að engu í kjölfar þessara aðgerða.

Undanfarnir dagar hafa verið starfsmönnum Baugs Group hf. og aðstandendum þeirra erfiðir. Á slíkum stundum hefur hins vegar verið ánægjulegt að finna hversu samheldinn þessi hópur er og hversu mikinn stuðning má sækja í hann. Það hefur ekki síður verið gott að finna hversu mörgum Íslendingum hefur ofboðið aðför ríkisvaldsins að Baugi Group hf. og aðstandendum félagsins og hversu viljugir þeir eru til að sýna samstöðu með starfsfólki fyrirtækisins."

mbl.is