Steingrímur Ari Arason segir sig úr einkavæðingarnefnd

Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna og fyrrum aðstoðarmaður fjármálaráðherra, hefur sagt sig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Tilkynnti hann þetta í bréfi í gær til forsætisráðherra.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra, sem einnig gegnir störfum forsætisráðherra í fjarveru Davíðs Oddssonar, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi um leið og hann sagðist ætla að tilnefna Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, fyrst um sinn í nefndina í stað Steingríms Ara.

Steingrímur Ari vildi ekki tjá sig um málið er Morgunblaðið náði tali af honum í gær en hann hefur setið í einkavæðingarnefnd frá því að hún var sett fomlega á laggirnar í ársbyrjun 1992. Hann var tilnefndur í nefndina af þáverandi fjármálaráðherra, Friðriki Sophussyni.

Aðspurður hvaða ástæður lægju að baki ákvörðun Steingríms Ara sagði Geir H. Haarde þær vera ákveðinn skoðanamun vegna einkavæðingar Landsbankans. Geir sagði að sér fyndist leitt að Steingrímur Ari skyldi hafa ákveðið að segja sig úr nefndinni eftir langt og gott starf.

Fjármálaráðherra sagði að í sínum huga væri aðalatriðið hvernig markaðurinn og fréttaskýrendur á fjármálamarkaði hefðu brugðist við jákvæðum tíðindum um sölu ríkisbankanna.

"Það er alveg ljóst að hagsmunir ríkisins í málinu eru margþættir. Eitt atriðið eru hin almennu efnahagsáhrif eins og innflæði gjaldeyris, áhrif á gengi krónunnar og hlutabréfamarkað. Til margra átta er að líta þegar hin pólitíska ákvörðun er tekin hjá ráðherranefnd um einkavæðingu. Það var gert á grundvelli álits alþjóðlega bankans HSBC. Ágreiningurinn er um atriði í því máli. Við sem berum hina pólitísku ábyrgð höfum tekið þessa ákvörðun og ef menn, sem vinna að þessu máli, eru ekki sáttir þá segir það sig sjálft að þeir hverfa af vettvangi," sagði Geir ennfremur.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem breytingar verða á skipan einkavæðingarnefndar. Sem kunnugt er sagði Hreinn Loftsson lögmaður sig úr nefndinni sem formaður hennar í febrúar sl. og Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, var skipaður í hans stað. Aðrir í nefndinni eru Jón Sveinsson lögmaður, tilnefndur af utanríkisráðherra, og Sævar Þ. Sigurgeirsson endurskoðandi, tilnefndur af viðskiptaráðherrra.

Samson eignarhaldsfélag ehf. er reiðubúið að kaupa allt að 45% hlut í Landsbanka Íslands og getur verðmæti þess hlutar numið allt að 12 milljörðum íslenskra króna. Félagið hefur ennfremur lýst yfir áhuga á að kaupa kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands.

Samson eignarhaldsfélag, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, Magnúar Þorsteinssonar og Björgólfs Guðmundssonar, fékk í gær afhent bréf frá framkvæmdanefnd um einkavæðingu þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið að ganga til viðræðna við félagið um kaup á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: