Í gæsluvarðhald til föstudags

Ástþór Magnússon, forystumaður samtakanna Friður 2000, var í gærkvöldi úrskurðaður 5 daga gæsluvarðhald en embætti ríkislögreglustjóra fór fram á 10 daga gæsluvarðhald. Ástþór var handtekinn aðfararnótt laugardags eftir að hann sendi fjölmiðlum, alþingismönnum, ríkisstjórninni og ýmsum embættismönnum orðsendingu um að Friður 2000 hafi rökstuddan grun um að ráðist verði gegn íslenskri flugvél með flugráni eða sprengjutilræði.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að yfirvöld líta málið mjög alvarlegum augum enda megi skilja orðsendinguna sem hótun um hryðjuverk eða fullyrðingu um að sá sem sendi póstinn muni framkvæma hryðjuverkaárás eða hafi vitneskju um að gerð verði hryðjuverkaárás gegn íslensku flugfélögunum.

mbl.is