Bónus styrkir Barnaspítala Hringsins

Jóhannes Jónsson afhendir hér Ásgeiri Haraldssyni, prófessor, styrkinn í dag.
Jóhannes Jónsson afhendir hér Ásgeiri Haraldssyni, prófessor, styrkinn í dag. mbl.is/Kristinn

Bónus færði í dag Barnaspítala Hringsins að gjöf umtalsverðan tækjabúnað. Um er að ræða 3 stjórnstöðvar fyrir lífsmarkavaka fyrir nýjan barnaspítala. Stjórnstöðvar þessar eru tengdar tækjum til að vaka yfir hjartslætti, öndun, súrefnismettun og blóðþrýstingi barna sem liggja á Barnaspítalanum. Samtímis gefur Bónus einnig hjartalínuritstæki ásamt endurlífgunartæki. Verðmæti gjafanna er áætlað 10-12 milljónir. Jóhannes Jónsson í Bónus mun afhenda tækin.

Bónus hefur á undanförnum árum styrkt Barnaspítala Hringsins til tækjakaupa. Bónus hefur áður gefið Barnaspítalanum stjórnstöð fyrir lífsmarkavaka, fjóra hjartsláttar-, öndunar- og súrefnisvaka, heilasírita, hitakassa fyrir vökudeild og margt fleira. Áætlað er að verðmæti gjafa frá Bónusi sé yfir 40 milljónir króna á undanförum árum.

Rúm vika er í að nýr Barnaspítali Hringsins verði afhentur. Nýr spítali, aukin og bætt starfsemi og meiri þjónusta kalla á meiri tækjabúnað en áður. Bónus hefur nú með þessari stórgjöf enn lagt hönd á plóginn til að bæta umönnun veikra barna á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert