Beinn kostnaður við ESB-aðild gæti verið 4 milljarðar á ári

Ein af byggingum Evrópusambandsins í Brussel.
Ein af byggingum Evrópusambandsins í Brussel.

Fyrirtækið Deloitte & Touche áætlar að Íslendingar myndu greiða um 8,2 milljarða króna á ári til Evrópusambandsins, eftir að stækkunarferli ESB lýkur eftir árið 2013. Á móti má gera ráð fyrir að 4,2 milljarðar króna skili sér aftur í formi styrkja og stuðnings, einkum við landbúnað og byggðaverkefni, og að greiðslujöfnuður þjóðarinnar verði þá neikvæður um 4 milljarða króna á ári. Samsvarar þetta 0,53% af vergri þjóðarframleiðslu og yrði Ísland þar af leiðandi í hópi þeirra þjóða sem greiða mest til sambandsins.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Deloitte & Touche gerði að beiðni utanríkisráðuneytisins. Tekið er fram að aðeins sé í þessum útreikningum tekið tillit til beinna fjárhagslegra áhrifa af hugsanlegri aðild en ekki fjallað um verðlagsmál, vaxtamál, neytendamál og önnur slík hagsmunamál sem snúi að aðild, svo sem áhrif af auknu aðgengi að mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Bent er á að hnattvæðingarnefnd hafi áætlað ávinning af upptöku evru um 15 milljarða króna á ári og Samtök iðnaðarins telji óbeinan ávinning af aðild um 40 milljarða króna á ári en að ýmsir hafi gagnrýnt útreikninga af þessu tagi. Skýrsluhöfundar leggja hvorki mat á þessa útreikninga né á pólitíska þætti varðandi kosti eða galla við stöðu Íslands í Evrópu með eða án aðildar að ESB.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að meta heildaráhrif aðildar á þjóðarbúið. Kostaðurinn skiptist milli ríkissjóðs, almennings og fyrirtækja. Greiðslur til ESB koma að mestu úr ríkissjóði, en framlögum frá ESB er úthlutað til verkefna sem nýtast almenningi og fyrirtækjum. Bein áhrif samningsins ættu því að bæta afkomu þeirra sem framlögunum nemur auk þeirrar lækkunar sem gera megi ráð fyrir að verði á innflutningstollum. Segir í skýrslunni að ekki sé hægt að líta eingöngu á afkomu ríkissjóðs heldur verði að líta til greiðslujöfnuðar þjóðarinnar í heild.

Deloitte & Touche reiknaði fyrst áhrif hugsanlegrar aðildar Íslendinga fyrir væntanlega stækkun ESB. Kemst fyrirtækið að þeirri niðurstöðu að afkoma ríkissjóðs muni versna um 5-7,6 milljarða króna á ári þar sem greiðslur til Evrópusambandsins greiðast að miklu leyti úr ríkissjóði. Framlög ESB muni hins vegar renna að mestu til almennings og fyrirtækja í formi beins stuðnings við landbúnað eða með uppbyggingarverkefnum. Áætlar Deloitte & Touche að afkoma fyrirtækja og almennings muni batna um 4,2-4,4 milljarða króna. Fyrirtækið tekur fram að óbein áhrif á ríkissjóð séu einnig umtalsverð. Upptaka evru og breytt vaxtastig geti þannig haft veruleg áhrif á ríkissjóð.

Þá gerir Deloitte & Touche ráð fyrir að nettó greiðslujöfnuður verði 1-1,1 milljarði lakari við stækkun Evrópusambandsins. Mestu muni um auknar greiðslur til ESB en einnig muni framlög til landbúnaðar- og uppbyggingarverkefna verða lægri. Samkvæmt því verði greiðslujöfnuður neikvæður um 2,4 til 5,6 milljarða króna á ári eftir því hvort miðað sé við lægri eða hærri mörk.

Deloitte & Touche segir að niðurstöðurnar sem settar eru fram í skýrslunni séu þess eðlis að þær geti aldrei orðið þær einu réttu þar sem „rétt" niðurstaða sé ekki til og fáist ekki fyrr en að loknum aðildarsamningum og þegar komin sé reynsla af áhrifum þeirra. Sérstaklega gildi þetta um mat á framlögum ESB til Íslands og muni þau að einhverju leyti ráðast af niðurstöðum flókinna samningaviðræðna og frumkvæðis við að sækja um þá styrki sem í boði verða.

Skýrslan í heild

mbl.is