Árni Johnsen dæmdur í 2 ára fangelsi

Lögmenn lesa dóma Hæstaréttar í dag.
Lögmenn lesa dóma Hæstaréttar í dag. mbl.is/Þorkell

Hæstiréttur dæmdi í dag Árna Johnsen fyrrum alþingismann í 2 ára fangelsi fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi, mútuþægni og rangar skýrslur til yfirvalda. Árni var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 15 mánaða fangelsi. Gísli Hafliði Guðmundsson, sem ákærður var ásamt Árna, var dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir að bera mútur á Árna en þrír menn sem einnig voru ákærðir í málinu voru sýknaðir. Árni var einnig dæmdur til að greiða málskostnað, þar af málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti sem námu 650 þúsund krónum.

Árni var alls ákærður í 27 töluliðum og fyrir héraðsdómi játaði Árni sök í 12 þeirra. Hann dró til baka játningu sína í tveimur fyrir Hæstarétti en rétturinn staðfesti sakfellingu héraðsdóms í þeim báðum og segir að ekkert hafi komið fram sem sýni að játning hans fyrir héraðsdómi hafi verið gerð fyrir mistök eða verði dregin í efa.

Þá staðfesti Hæstiréttur sakfellingu héraðsdóms í 4 ákæruliðum sem Árni játaði ekki. Ennfremur var Árni sakfelldur fyrir brot samkvæmt fjórum ákæruliðum til viðbótar en niðurstaða héraðsdóms um sýknu í fimm ákæruliðum var staðfest. Var Árni því sakfelldur fyrir brot samkvæmt 22 ákæruliðum.

Með vísan til þess að Árni var sakfelldur fyrir fleiri brot en í héraðsdómi, að hann hafði látið af starfi alþingismanns vegna málsins og gengist greiðlega við hluta þeirra sakargifta sem hann var borinn, var refsing hans ákveðin 2 ára fangelsi en fallist á það með héraðsdómi að hvorki væri unnt að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti né að hluta.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is