Rauði krossinn kaupir rúm fyrir fanga á Kvíabryggju

Rauðikross Íslands (RKÍ) hefur ákveðið að gefa fangelsinu á Kvíabryggju 14 ný rúm sem leysa munu af hólmi 18 ára gömul rúm sem löngu þóttu þarfnast endurnýjunar, að sögn Helgu G. Halldórsdóttur, skrifstofustjóra innanlandsstarfs RKÍ.

„Þetta er um tveggja ára gamalt mál, það kom beiðni frá föngum á Kvíabryggju á sínum tíma og hún hefur verið til umfjöllunar hjá deildum á Vesturlandi. Þetta er ekki dæmigert verkefni RKÍ sem engu að síður hefur aðstoðað fanga í íslenskum fangelsum heilmikið.

Þarna er um að ræða kaup á varningi sem augljóslega á að vera á hendi ríkisins. Af hálfu svæðisráðsins á Vesturlandi var gengið úr skugga um það hjá Fangelsismálastofnun hvort endurnýjun rúmanna væri á dagskrá. Þegar í ljós kom að svo var ekki, var ákveðið að verða við þessari gömlu beiðni fanganna, enda þörfin mjög mikil, því rúmin á Kvíabryggju hafa lengi verið mjög léleg," sagði Helga og bætti við að einn af vistmönnum á Kvíabryggju, Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, hefði ýtt á eftir málinu.

Helga sagði, að rúmin væru fengin hjá RB-rúmum í Hafnarfirði, eða íslensk smíði, og hefði framleiðandinn gefið góðan afslátt. Væri framlag hans í þessu máli myndarlegt.

mbl.is