Segja sig úr stjórn Baugs vegna alvarlegs trúnaðarbrests: Lögmenn gera úttekt á upplýsingaleka

Tveir stjórnarmenn í Baugi, Guðfinna S. Bjarnadóttir og Þorgeir Baldursson, sögðu sig úr stjórn fyrirtækisins í gær. Fram kemur í yfirlýsingu þeirra að þau segja sig úr stjórninni vegna alvarlegs trúnaðarbrests. Tildrög þess að upplýsingar um Baug og fundargerðir fyrirtækisins bárust Fréttablaðinu og voru birtar í blaðinu 1. mars sl. verða rædd á næsta stjórnarfundi Baugs næstkomandi fimmtudag, að sögn Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs. Samkvæmt upplýsingum hans eru þrír lögmenn að vinna úttekt um málefni Baugs og hvernig upplýsingarnar láku út.

Hreinn segir að á óformlegum stjórnarfundi Baugs í gær hafi eingöngu verið rætt um afsögn tveggja stjórnarmanna fyrirtækisins, Guðfinnu S. Bjarnadóttur og Þorgeirs Baldurssonar. Það bíði hins vegar næsta stjórnarfundar að ræða hvernig upplýsingar hafi borist úr fyrirtækinu.

Varamenn í stjórn Baugs taka sæti Guðfinnu og Þorgeirs, þau Kristín Jóhannesdóttir lögfræðingur og Norðmaðurinn Hans Kristian Hustad, sem unnið hefur m.a. fyrir Reitangruppen. Ný stjórn verður svo skipuð á næsta aðalfundi í vor.

"Það er mjög mikil eftirsjá að þeim Guðfinnu og Þorgeiri. Þau hafa verið öflugir stjórnarmenn og við höfum átt mjög gott samstarf. Jafnframt liggur fyrir að tveir varamenn í stjórn taka sæti þeirra," segir Hreinn.

Í yfirlýsingu Guðfinnu og Þorgeirs segir: "Við höfum í dag sagt okkur úr stjórn Baugur Group hf. (Baugs). Ástæðan er sá alvarlegi trúnaðarbrestur sem orðið hefur innan stjórnarinnar í kjölfar birtingar Fréttablaðsins sl. laugardag á trúnaðarupplýsingum stjórnar. Trúnaður og heilindi eru forsendur fyrir samstarfi manna, hvort sem er í stjórn fyrirtækja eða á öðrum vettvangi. Bresti sá trúnaður eru ekki lengur forsendur fyrir samstarfi og því treystum við okkur ekki til að starfa áfram í stjórninni. Við hörmum þær erfiðu aðstæður sem upp hafa komið, þær geta ekki þjónað hagsmunum neins, allra síst hluthafa Baugs.

Með þessari ákvörðun erum við ekki að taka afstöðu til neins annars en þess trúnaðarbrests sem orðið hefur og þess hvort við getum sætt okkur við að starfa við slíkar aðstæður. Baugur er öflugt fyrirtæki sem hefur yfir að ráða miklum fjölda frábærra starfsmanna bæði hér heima og erlendis. Við óskum fyrirtækinu og starfsmönnum þess velfarnaðar á komandi árum."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »