Þögul mótmæli gegn stríði við kertaljós

Þögul mótmæli gegn hernaði í Írak fóru fram í Ástralíu …
Þögul mótmæli gegn hernaði í Írak fóru fram í Ástralíu í morgun en þá var kvöld að þarlendum tíma. Myndin var tekin á Bondi ströndinni í Sydney. AP

Í dag mun fólk víðs vegar um heim, þ.á.m. á Íslandi, sameinast með logandi kertaljós í hönd og mótmæla í þögn yfirvofandi stríði í Írak. Hér á landi verður komið saman á Lækjartorgi í Reykjavík, Ráðhústorginu á Akureyri, Silfurtorgi á Ísafirði og á Brekkubæ í Snæfellsbæ klukkan 19:00. Viðburðurinn mun eiga sér stað á þúsundum staða í u.þ.b 130 löndum.

Frumkvæði að þessu átaki sem nefnt er Global Vigil for Peace hafa samtökin MoveOn.org (Democracy in Action) í samvinnu við Win Without War, trúarleiðtogann og friðarverðlaunahafann Desmond Tutu og fjölmörg trúarsamtök.

Ekki er um neina sérstaka dagskrá að ræða, aðeins samkomu í þögn við kertaljós til að sýna samstöðu gegn yfirvofandi stríði. Fólk er beðið að koma með kerti og pappa/plast mál og kveikjara. Ef veður verður slæmt er best að koma með friðarkertin sem þola íslenskt veður, segir í frétt frá undirbúningsnefnd átaksins.

mbl.is