Brást hinn versti við afskiptum lögreglu

Maður um tvítugt sefur nú úr sér áfengisvímu í fangaklefum lögreglunnar í Keflavík en hann var staðinn að verki við innbrot í bíl í bænum undir morgun.

Maðurinn braut rúðu í bílnum og sat inni í honum er lögregla kom þar að. Brást hann hinn versti við afskiptum lögreglu og kom til átaka sem lauk með því að lögregla hafði manninn undir og færði hann í fangaklefa.

Þá voru tveir menn handteknir í gærkvöldi eftir að fíkniefni fundust í fórum þeirra. Annar reyndi að fleygja frá sér umslagi og í því voru 30 grömm af amfetamíni og 15 grömm af hassi. Mönnunum var sleppt eftir yfirheyrslu.

mbl.is