Nýr einkarekinn framhaldsskóli í Hafnarfirði í haust: Nemendur fá stúdentspróf átján ára

Næsta haust mun nýr einkarekinn framhaldsskóli, Menntaskólinn Hraðbraut, taka til starfa í Hafnarfirði. Þar verður boðið upp á tveggja ára nám til stúdentsprófs og munu nemendur skólans því útskrifast átján ára, að sögn Ólafs Hauks Johnson, skólastjóra.

Boðið verður upp á bóknám á tveimur brautum, náttúrufræði- og málabraut. Náminu verður stillt upp í 15 fimm vikna lotur og verða þrjár námsgreinar teknar fyrir í hverri lotu. "Kennsla fer eingöngu fram á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum en hina virku dagana er gert ráð fyrir að nemendur mæti í skólann og sinni heimanámi í skólastofunum. Þá daga verða kennarar viðstaddir og veita aðstoð," útskýrir Ólafur. "Við lok hverrar fimm vikna lotu verða síðan próf og eftir það frí í viku fyrir þá sem ná en gert ráð fyrir að þeir sem falli noti vikuna til að bæta sig." Hann tekur fram að kennarar muni bera meiri ábyrgð á námi nemenda en almennt gerist í framhaldsskólum. "Andinn á að vera þannig að þegar nemandinn er kominn í skólann verði allt gert til hjálpa honum sem mest og best í náminu."

Sjö ára gömul hugmynd

Ólafur er viðskiptafræðingur með kennsluréttindi frá Kennaraháskólanum og hefur unnið við kennslu í framhaldsskóla í 12 ár. Þá hefur hann rekið Hraðlestrarskólann í 20 ár og Sumarskólann þar sem framhaldsskólanemendur hafa getað tekið framhaldsskólaáfanga á mánaðarlöngum námskeiðum á sumrin. Hann segist hafa fengið hugmyndina að Hraðbrautinni árið 1996 við rekstur Sumarskólans. "Ég hef verið með Sumarskólann í 10 ár ásamt mági mínum og má segja að þar hafi ég verið að prufukeyra hugmyndina að þessum nýja skóla."

Skólaárið mun standa yfir frá miðjum ágúst og fram í miðjan júní eða um mánuði lengur en í öðrum framhaldsskólum en á móti kemur að nemendur útskrifast með stúdentspróf tveimur árum fyrr en venja er. "Vinnuálag verður auðvitað nokkurt en á móti kemur að vinnunni verður hagað þannig að námið verði mjög markvisst. Fræðimenn sem hafa þróað hugmyndina að skólanum með mér hafa reiknað út að námið muni liggja vel fyrir um 15% nemenda í hverjum árgangi en gert er ráð fyrir að um 100 nemendur verði teknir inn í skólann á hverju hausti."

Hann segir félagslíf skólans auðvitað mótast af því hversu lítill hann er.

Þjóðhagslegur ávinningur

Menntaskólinn Hraðbraut verður til húsa á Reykjavíkurvegi 74 þar sem Iðnskólinn í Hafnarfirði var áður. Húsið verður þó fyrst nánast endurbyggt og heilli hæð bætt ofan á það, að sögn Ólafs. Hann tekur fram að ásamt honum sjálfum muni fyrirtækið Nýsir hf. koma að rekstrinum. "Einnig verður Verzlunarmannafélag Reykjavíkur hluthafi, en félagið hefur sýnt því mikinn áhuga að stuðla að styttingu stúdentprófs." Hann nefnir að menntamálaráðuneytið hafi þegar veitt faglega viðurkenningu á náminu en auk þess hafi verið gerður samningur um fjárstuðning. "Skólagjöld verða um 190 þúsund krónur fyrir hvort árið og munu nemendur geta fengið lán fyrir þeirri upphæð frá viðskiptabönkum. Það þarf síðan ekki að byrja að greiða niður fyrr en að afloknu háskólanámi." Hann bendir á að ávinningurinn af því að fá stúdentspróf 18 ára sér margvíslegur. "Nemendur komast fyrr út á vinnumarkaðinn sem skapar þeim meiri möguleika og tekjur fyrir þá. Þá er einnig þjóðhagslegur ávinningur af því að fá ungt fólk fyrr út í atvinnulífið."

Skráning mun hefjast fljótlega en upplýsingar um skólann má nálgast á heimasíðunni hradbraut.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »