Fangelsisdómur fyrir innflutning á hættulegu fíkniefni staðfestur

Hæstiréttur staðfesti í dag þriggja ára fangelsisdóm yfir Sigurði Hilmari Ólasyni sem ásamt þremur öðrum mönnum var ákærður og dæmdur fyrir innflutning mikils magns hættulegs fíkniefnis til landsins í hagnaðarskyni.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar í desember sl. að ósk Sigurðar Hilmars en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins sem krafðist staðfestingar á sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu hans. Krafðist Sigurður Hilmar hins vegar sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Málið var höfðað gegn þremur mönnum auk ákærða og voru þeir sakfelldir og dæmdir til refsingar í héraðsdómi. Dómnum hefur ekki verið áfrýjað að því er hina þrjá varðar og var þáttur þeirra því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti nú.

Í héraðsdómi þótti framburður tveggja meðákærðu um þátt Sigurðar Hilmars trúverðugur en framburður hans sjálfs ótrúverðugur. Þótti fyllilega sannað að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Í Hæstarétti var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og tekið fram að hann væri þannig sannur að sök um innflutning mikils magns hættulegs fíkniefnis til landsins í hagnaðarskyni.

Sigurður Hilmar var dæmdur til að borga áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin 250.000 krónu málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti. Voru mennirnir fjórir dæmdir til að greiða allan sakarkostnað í héraði, en þar gekk dómur 7. nóvember, þar með talin samtals 1,1 milljónar króna málsvarnarlaun verjenda sinna.

Auk Sigurður Hilmars var Ingi Þorgrímur Guðmundsson dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraði fyrir sinn þátt í málinu en samverkamenn þeirra tveir 12 og 20 mánaða fangelsi.

Þrír mannanna voru dæmdir fyrir að skipuleggja og standa að smygli á 30 kílóum af kannabisefnum með vörusendingu í gámi sem kom til landsins í mars í fyrra. Sá er er 12 mánaða fangelsi hlaut var dæmdur fyrir aðild að innflutningi á fjórðungi efnisins með því að leggja til fjármagn til kaupa á um 7,5 kg af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert