Laun æðstu embættismanna hækka samkvæmt ákvörðun Kjaradóms

Kjaradómur hefur ákvarðað laun æðstu embættismanna ríkisins og hækka þau um allt að 19,3%. Grunnlaun forseta Íslands hækka þó ekki. Laun forsætisráðherra hækka mest, um 141 þúsund krónur eða um 19,3% og verða þau frá maí 871.000 krónur. Laun annarra ráðherra verða 785.669 krónur að meðtöldu þingfararkaupi sem verður 437.777 krónur. Hækka þau um 123 þúsund krónur eða um 18,4% Dómurinn segir í úrskurði sínum, að hlutur dagvinnulauna í heildarlaunum þeirra embættismanna sem Kjaradómur ákvarði laun, aukist við ákvörðun Kjaradóms nú.

Samkvæmt ákvörðun Kjaradóms verða laun forseta Íslands áfram 1.460.156 krónur á mánuði. Laun forseta Hæstaréttar verða 596.646 krónur en aðrir hæstaréttardómarar fá 556.975 krónur í mánaðarlaun. Að auki fær forseti Hæstaréttar jafngildi 54 eininga mánaðarlega vegna yfirvinnu en öðrum hæstaréttardómurum skal greiða jafngildi 45 eininga. Hver eining, samkvæmt nýju kerfi Kjaradóms, jafngildir 4.378 krónum.

Laun ríkissaksóknara verða 556.975 krónur auk jafngildis 45 eininga mánaðarlega. Laun ríkissáttasemjara verða 538.140 krónur auk jafngildis 54 eininga mánaðarlega frá og með 1. september 2003. Fram til þess tíma fer um yfirvinnu hans sem hingað til. Ríkisendurskoðandi fær 538.140 krónur í mánaðarlaun auk jafngildis 54 eininga mánaðarlega. Laun biskups Íslands verða 538.140 krónur auk jafngildis 38 eininga mánaðarlega. Dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur fær 485.371 krónur í laun en aðrir dómstjórar 453.099 krónur. Dómstjóranum í Reykjavík skal auk þess greiða jafngildi 54 eininga mánaðarlega en öðrum dómstjórum skal greiða jafngildi 45 eininga. Þá fá héraðsdómarar 437.777 krónur auk jafngildis 35 eininga mánaðarlega. Laun umboðsmanns barna verða 437.777 krónur auk jafngildis 23 eininga mánaðarlega.

mbl.is