Óheimilt að leggja hærri VSK á erlendar bækur en innlendar

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að leggja hærri virðisaukaskatt á sölu bóka á erlendum tungum en íslensku. Hefur ríkinu verið gert að endurgreiða Herði Einarssyni mismun á 24,5% virðisaukaskatti sem hann var látinn greiða af bókum á ensku, og 14% virðisaukaskatti sem lagður er á innlendar bækur.

Hæstiréttur taldi að ákvæði EES-samningsins um bann við skattlagningu, sem væri til þess fallin að vernda óbeint framleiðsluvörur eins samningsaðila gagnvart framleiðsluvörum annarra aðila samningsins, bæri að skýra sem sérreglu um skattalega meðferð á innflutningi frá öðrum EES-ríkjum, er gengi framar eldra ákvæði laga um lægri virðisaukaskatt af sölu bóka á íslenskri tungu. Hefði því verið óheimilt eftir að EES-samningnum var veitt lagagildi með lögum nr. 2/1993 að gera greinarmun á bókum á íslensku og öðrum tungum við álagningu virðisaukaskatts. Var úrskurður ríkistollanefndar því ógiltur og íslenska ríkinu gert að endurgreiða Herði umræddan mismun.

mbl.is