Varað við eitruðum eftirlíkingum af þekktum áfengistegundum

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins varar við eftirlíkingum af þekktum áfengistegundum en í Finnlandi hefur einn maður látist og nokkrir veikst alvarlega eftir neyslu eftirlíkinga af þekktum áfengistegundum og í Noregi er einn maður í öndunarvél af svipuðum orsökum. Um er að ræða eftirlíkingar af m.a. Absolut vodka og Captain Morgan rommi. Eftirlíkingarnar innihalda m.a. metanól og etylenglykól, sem eru betur þekkt sem tréspíri og frostlögur.

ÁTVR segir að ekki sé ástæða til að óttast vöru sem seld sé eftir viðurkenndum leiðum og hægt er að rekja beint til framleiðanda. Hins vegar séu eftirlíkingar þessar mjög áþekkar hinni réttu framleiðslu og því full ástæða að varast vöru þar sem uppruni er óviss.

Fram kemur í tilkynningu ÁTVR að öll vara sem seld er í vínbúðum ÁTVR sé keypt af viðurkenndum umboðsaðilum og fari í gegnum strangt gæðaeftirlit. Reglur um vöruskil þeirra áfengistegunda sem um ræðir hafi verið hertar og verði þær einungis mótteknar gegn framvísun kassakvittunar og skoðaðar nákvæmlega áður en þær eru settar í sölu aftur.

Fram kemur í tilkynningu frá Karli K. Karlssyni hf. sem flytur inn Absolut og Captain Morgan, að líklega séu um að ræða eftirlíkingar sem voru bruggaðar í Eistlandi og síðan smyglað til Noregs og Finnlands. Í Noregi, hafi málið verið rakið til einstaklings sem ítrekað hafi komist í kast við lögin vegna sölu á heimabrugguðu áfengi til veitingahúsa. Maðurinn hafi játað verknaðinn og talið sé að umrætt magn af vökvanum hafi nú þegar verið gert upptækt.

Karl K. Karlsson hf. segist flytja öll sín vörumerki inn beint frá viðurkenndum framleiðendum. Vill fyrirtækið brýna fyrir neytendum og veitingahúsum að beina innkaupum alfarið til viðurkenndra framleiðenda og söluaðila. Absolut vodka sé einungis framleitt í Åhus í Svíðþjóð, og Captain Morgan sé flutt inn til Íslands beint frá upprunalandinu, Puerto Rico.

Á heimasíðu Karls K. Karlsson hf. hefur verið komið fyrir upplýsingum með merkingum umræddra vörutegunda fyrir þá sem vilja fullvissa sig um að þeir hafi upprunalega vöru undir höndum.

Heimasíða Kars K. Karlssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert