Eldingu laust í vél Flugfélags Íslands

Eldingu laust í vél Flugfélags Íslands fljótlega eftir að hún lagði af stað frá Reykjavíkurflugvelli til Ísafjarðar síðdegis. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að vélinni var þegar snúið við og lent aftur á Reykjavíkurflugvelli. Farþegar voru þar fluttir í aðra vél og lögðu af stað aftur til Ísafjarðar nú stuttu fyrir fréttir. Fimm farþegar af 28 neituðu þó að fara um borð í seinni vélina. Þeim verður boðið upp á áfallahjálp.

Árni Gunnarsson, sölu og markaðsstjóri FÍ, sagði við RÚV að þetta komi fyrir við og við en vélarnar séu útbúnar eldingavara sem leiði eldingarnar framhjá og því engin hætta á ferðum. Reglan sé þó að fara stystu leið til baka með vélina eða lenda við fyrsta tækifæri til öryggis. Engan sakaði í vélinni.

mbl.is