Um 90% sætanýting hjá Katla Travel í sumar

Um 13.000 gestir koma til Íslands með leiguflugi Katla Travel, Troll Tours og Thomas Cook í sumar, eða frá maí til september og er sætanýting tæplega 90% að meðaltali. Sætanýtingin er best í júlí eða rösklega 99%.

Fyrr á þessu ári var gert ráð fyrir að farþegar í orlofsferðum til Íslands á vegum Katla Travel yrðu tvöfalt fleiri en á síðasta ári og hefur sú áætlun gengið eftir, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Flogið er frá þremur stórborgum í Þýskalandi; Berlín, Frankfurt og München auk Vínar í Austurríki.

Íslandsflugið er samstarfsverkefni Katla Travel, Troll Tours og Thomas Cook í Þýskalandi, en hið síðastnefnda rekur rúmlega 16 þúsund umboðsferðaskrifstofur á þýska markaðnum og hefur á að skipa rúmlega 60 þúsund starfsmönnum. Terra Nova sér um að selja í ferðir héðan til fyrrnefndra borga. Flogið er m.a. með breiðþotu af gerðinni Boeing 767 sem tekur 270 farþega og breiðþotu af gerðinni Airbus 340 sem tekur 260 farþega.

Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Katla Travel, segir að ætla megi að markaðshlutdeild þýsku flugfélaganna árið 2003 í flutningi þýskra og austurrískra ferðamanna með beinu flugi til landsins sé nálægt 60% á ársgrundvelli og fari ört vaxandi. Sé skoðað frá hvaða löndum flestir ferðamenn komi sem skoða landið eru Þjóðverjar og Austurríkismenn meðal þeirra fimm efstu. Þeir ferðist mest um landið og hafi lengsta viðdvöl, aðallega fimm dýrustu mánuði ársins og gefi því mest af sér til greinarinnar og þjóðarbúsins.

Í Katla Travel samstæðunni eru þrjú félög: Katla Travel GmbH, sem sérhæfir sig í markaðs- og sölustarfsemi í Þýskalandi, Katla DMI ehf. sem sér um að skipuleggja hóp og einstaklingsferðir á Íslandi og sumarhúsamiðlunin Viator ehf. Eigendur og framkvæmdastjórar eru Bjarnheiður Hallsdóttir og Pétur Óskarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert