"Gætum selt 20 þúsund miða á landsleikinn við Þjóðverja"

Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að áhuginn fyrir landsleik Íslands og Þjóðverja væri gríðarlegur. Hann væri það mikill að KSÍ gæti selt allt að 20.000 aðgöngumiða á leikinn ef Laugardalsvöllur tæki það marga í sæti en hann tekur aðeins 7.034 manns í sæti.

"Það hefur verið hringt linnulaust á skrifstofur KSÍ síðan það varð uppselt á leikinn. Fólk hefur verið að hringja og athuga hvort það sé ekki möguleiki að fá miða en því miður er það ekki hægt. Fólk tekur þessu misjafnlega illa en margir eru mjög fúlir og ég skil það mjög vel.

Því miður er ekkert sem við getum gert í þessu og það er virkilega leiðinlegt að geta ekki hjálpað þeim fjölmörgu sem hafa ekki miða en vilja komast á völlinn. Það er eins og fólk hafi ekki áttað sig á því að miðasalan byrjaði á netinu fyrir töluverðu síðan en salan tók svo mikinn kipp eftir leikinn gegn Færeyjum. Ég vissi alltaf að það yrði uppselt á leikinn gegn Þjóðverjum en ég bjóst ekki við því að það myndi gerast svona snemma," sagði Geir í samtali við Morgunblaðið.

Geir telur að það verði að fara að stækka Laugardalsvöllinn til þess að hann geti staðið undir nafni sem þjóðarleikvangur Íslendinga.

Stækka þarf þjóðarleikvanginn

"Það hefur myndast mikil spenna í þjóðfélaginu fyrir leiknum gegn Þjóðverjum. Þetta hefur gerst vegna þess að Ísland er á toppnum í riðlinum og það er sorglegt hve fáa miða við getum selt. Ég efast ekki um að við hefðum getað selt allt að 20.000 miða á leikinn ef við hefðum völl sem tæki það marga í sæti. KSÍ lendir allt of oft í því að hafa ekki nægilega mörg sæti fyrir fólk og þjóðarleikvangurinn er einfaldlega of lítill. Það er ljóst að það þarf að bæta úr þessu og ég tel að það sé vilji til þess hjá yfirvöldum. Ég held hins vegar að það þurfi meiri þrýsting á borgaryfirvöld og ríkið til að drífa þetta áfram. Laugardalsvöllurinn er okkar þjóðarleikvangur og hann á að taka miklu fleiri í sæti svo það sé hægt að uppfylla kröfur Íslendinga um að sjá landsliðið sitt spila."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »