Fundu ævaforna rostungstönn í Fljótavík

Tönnin og hluti beinsins mælist 46 cm að lengd.
Tönnin og hluti beinsins mælist 46 cm að lengd.

Hörður Ingólfsson, stjórnarformaður Póls hf. á Ísafirði, fann í vikunni rostungstönn í Fljótavík, í Sléttuhreppi hinum forna. Hörður segir að svo virðist sem tönnin sem er áföst við brot úr hauskúpu sé ævaforn.

„Hún fannst á leirunum fyrir framan við Svíná innst í Fljótavíkinni. Við vorum þarna á ferð, ég og Úlfar Finnbjörnsson kokkur, og fundum hana á botni Fljótavíkurvatnsins sem er mjög grunnt þarna. Fyrir framan ána er mikill framburður og töluvert af surtarbrandi í botni vatnsins. Ég frétti síðan af því frá Edward H. Finnssyni, flugmanni, að hann hefði fundið hauskúpu á sömu slóðum fyrir allmörgum árum.“

Heildarlengd beinsins og tannarinnar er 46 cm en tönnin sjálf mælist 30 cm. „Hún hefur sjálfsagt verið lengri því glerunginn vantar á“, segir Hörður.

Brot úr tönninni hefur verið sent til aldursgreiningar. „Það verður forvitnilegt að sjá hversu gömul hún er en mér er sagt að þarna gæti hafa verið rostungalátur í fyrndinni. Héðan í frá hefur maður opin augun þegar farið er um þessar slóðir“, sagði Hörður.

mbl.is