Vetrarríki fyrir norðan

Bifreiðaeigendur á Akureyri þurftu að skafa rúðurnar áður en lagt …
Bifreiðaeigendur á Akureyri þurftu að skafa rúðurnar áður en lagt var af stað í morgun. mbl.is/Kristján

Þegar íbúar á Sauðárkróki vöknuðu í morgun var Vetur konungur búinn að leggja undir sig fjallahringinn í kring. Snjór sást upp eftir Sauðárgili og í hlíðum Molduxa. Þá brá íbúum í Eyjafjarðarsveit talsvert er þeir risu úr rekkju í morgun, en þá var allt hvítt yfir að líta. Samkvæmt spám er gert ráð fyrir að snjórinn staldri ekki lengi við því búist er við rigningu næstu nótt.

Það var heldur kuldalegt um að litast þegar Akureyringar risu úr rekkju í morgun, hvít jörð og hitastigið niður undir frostmarki. Ökumenn þurftu að grípa til sköfunnar og víða var hálka á götum bæjarins. Börnin voru vel klædd á leið til skóla og ekki var hægt að sjá á svip þeirra að þau væru neitt ósátt við fyrsta snjóinn á þessu hausti. Þá féll fyrsti snjór vetrarins á Egilsstöðum síðari hluta nætur og í morgun. Gránað hefur í fjöll og aðeins í byggð, en festir ekki á götum. Vegagerðin segir að hálka sé á vegum víða á Norður- og Austurlandi.

Spáð er norðanátt, víða 8-13 m/s fram yfir hádegi, en síðan hægari um vestanvert landið. Skúrir eða slydduél á Norðaustur- og Austurlandi, en úrkomulítið síðdegis. Annars yfirleitt bjartviðri eða heiðskírt. Hiti 1 til 8 stig, kaldast norðanlands. Vaxandi suðvestanátt og þykknar upp norðvestantil í kvöld, 10-15 og dálítið súld í nótt, en léttir til austanlands. Suðvestan 13-18 m/s norðan- og vestantil á morgun og súld eða rigning, en hægari suðaustan- og austantil og skýjað með köflum. Hlýnandi veður og hiti 5 til 11 stig síðdegis.

Vetrarlegt var um að litast í Eyjafjarðarsveit í morgun.
Vetrarlegt var um að litast í Eyjafjarðarsveit í morgun. mbl.is/Benjamín
Frá Egilsstöðum í morgun.
Frá Egilsstöðum í morgun. mbl.is/Steinunn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert