Skriflegt leyfi þarf til að skoða skjöl Halldórs Laxness í Þjóðarbókhlöðunni

Fjölskylda Halldórs Laxness hefur óskað eftir því að lokað verði fyrir aðgang að þeim gögnum skáldsins sem varðveitt eru í Þjóðarbókhlöðunni, öðrum en handritum að útgefnum verkum hans, nema með skriflegu leyfi fulltrúa fjölskyldunnar. Handritadeild Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns hefur orðið við þessari beiðni.

Ögmundur Helgason, forstöðumaður handritadeildarinnar, segir að borist hafi bréf frá fulltrúa fjölskyldunnar um að loka aðgangi að gögnunum í þrjú ár. Á þeim tíma megi enginn skoða gögn skáldsins, meðal annars bréfasafn og minnisbækur, nema með skriflegu leyfi Guðnýjar Halldórsdóttur, dóttur skáldsins, sem kemur fram fyrir fjölskylduna í þessu máli. Jafnframt hafi verið tekið fram að Halldór Guðmundsson sem vinnur að ritun ævisögu Halldórs og Helga Kress bókmenntafræðingur hefðu slíkt leyfi.

Höfundarréttur gildir í 70 ár eftir andlát
Ögmundur segir að erfingjar hafi höfundarrétt að verkum manna í sjötíu ár eftir lát þeirra og geti ákveðið, takmarkað eða bannað aðgang að gögnunum. Segir hann að nokkuð sé um að það sé gert, jafnvel í áratugi, og hafi það farið vaxandi. Nefnir sem dæmi að aðgangur að öllum gögnum Gunnars Gunnarssonar rithöfundar sé lokaður öðrum en þeim sem hafi skriflegt leyfi fulltrúa fjölskyldu hans.

Ekki náðist í Guðnýju Halldórsdóttur í gær og Ögmundur segir að skýringar hafi ekki fylgt bréfi hennar. Telur hann líklegt að ákvörðunin hafi, eins og stundum hafi gerst áður, verið tekin vegna umræðna í fjölmiðlum að undanförnu en eins og fram hefur komið vinnur Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor að ritun ævisögu Halldórs Laxness, án samþykkis ættingja eða aðstandenda skáldsins. Hefur hann meðal annars skoðað gögn Halldórs í Þjóðarbókhlöðunni undanfarna mánuði.

Ögmundur segir að stundum gleymist í umræðu sem þessari að á meðan höfundarrétturinn sé virkur megi enginn vitna nema mjög takmarkað í óbirt bréf eða önnur verk manna nema með leyfi rétthafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert