Dómur þyngdur yfir mönnum sem urðu manni að bana í Hafnarstræti

Hæstiréttur tvöfaldaði refsinguna sem mennirnir voru dæmdir í af héraðsdómi.l
Hæstiréttur tvöfaldaði refsinguna sem mennirnir voru dæmdir í af héraðsdómi.l mbl.is

Hæstiréttur þyngdi um helming í dag fangelsisrefsingu tveggja manna sem urðu manni að bana í Hafnarstræti í maí í fyrravor og annar þeirra slasaði tvo menn aðra með líkamsárásum í miðborginni rúmum mánuði fyrr. Fangelsisrefsing Baldurs Freys Einarssonar var þyngd úr þremur árum í sex og refsing Gunnars Friðriks Friðrikssonar úr tveimur árum í þrjú. Þótti Hæstarétti ekki annað fært með hliðsjón af alvarleika brota þeirra en að þyngja refsingu sem Héraðsdómur ákvað Baldri Frey og Gunnari Friðrik í maí sl.

Ríkissaksóknari skaut dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. maí sl. til Hæstaréttar og krafðist þyngingu refsingar en Baldur Freyr og Gunnar Friðrik kröfðust sýknu.

Hæstiréttur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Baldur Freyr og Gunnar Friðrik hafi valdið þeim alvarlegu áverkum sem ollu dauða manns sem þeir réðust á í Hafnarstræti að morgni laugardagsins 25. maí vorið 2002, en hann lést af völdum áverkanna 2. júní sama ár. Segir rétturinn þá bera fulla refsiábyrgð og þeim átti að vera ljóst að atlögur þeirra voru til þess fallnar að leiða til alvarlegs líkamstjóns.

Segir Hæstiréttur að þótt héraðsdómur hafi fallist á að fórnarlambið hafi átt einhvern þátt í upphafi átakanna væri þó ljóst af framburði vitna að tilefni árásar Baldurs Freys á manninn var smávægilegt. Eftir að Baldur Freyr hafði verið dreginn ofan af manninum kallaði hann til félaga sinna um að veitast að honum og sinnti Gunnar Friðrik því kalli. Eftir árásina forðuðu þeir sér ásamt félögum sínum burt án þess að skeyta um hvað af manninum unga yrði og létu aðra um að hlú að honum.

Baldur Freyr var sakfelldur fyrir þrjár alvarlegar líkamsárásir sem Hæstiréttur segir að mestu hafa verið tilefnislausar og sérlega hrottafengnar. Ætti hann sér ekki málsbætur.

Þótt þátttaka Gunnars Friðriks að manninum hafi verið takmörkuð segir Hæstiréttur hana hafa verið til þess fallna að hafa hörmulegar afleiðingar. Var fangelsisrefsing Baldurs Freys Einarssonar aukin úr þremur árum í sex og refsing Gunnars Friðriks Friðrikssonar úr tveimur árum í þrjú. Frá refsivist beggja dregst óslitið gæsluvarðhald þeirra frá 26. maí 2002.

Ber að borga 5,8 milljónir í bætur og verjendalaun

Fyrir brot sín þurfa Baldur Freyr og Gunnar Friðrik að borga í bætur, málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun samtals 5,8 milljónir króna að frátöldum vöxtum og dráttarvöxtum frá því brotin voru framin fyrir hálfu öðru ári.

Þar af þarf Baldur Freyr að borga tveimur fórnarlömbum sínum í fyrstu árásunum tveimur samtals 864 þúsund auk vaxta og dráttarvaxta. Saman þurfa þeir að borga 2.358.950 krónur í bætur auk vaxta til foreldra mannsins sem þeir urðu að bana.

Alls þarf Gunnar Friðrik að borga 800 þúsund í málsvarnarlaun verjenda síns í héraði og fyrir Hæstarétti. Baldur Freyr þarf að borga 1.520 þúsund í réttargæsluþóknun lögmanna tveggja fyrstu fórnarlamba sinna og málsvarnarlaun verjanda sinna. Saman þurfa þeir að borga 250 þúsund króna þoknun réttargæslumanns foreldra hins látna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert