Breskur sérvitringur ætlar að grafa 1,6 milljónir króna í íslenska jörð

Breti að nafni Bill Drummond heitir því að grafa í íslenska jörð 20.000 dollara í seðlum, jafnvirði 2,6 milljóna króna, þegar hann hefur selt öll snifsi ljósmyndar sem tekin var á Íslandi og endurheimt þannig peningana sem hann borgaði fyrir myndina á sínum tíma.

Drummond öðlaðist á sínum tíma frægð er hann kveikti í einni milljón punda í 50 punda seðlum árið 1994. Hann stofnaði á sínum tíma hljómsveitirnar KLF og K-Foundation og var umboðsmaður hljómsveitanna Echo and The Bunnymen og The Teardrop Explodes.

Hann keypti árið 1995 ljósmynd sem ber titilinn „Brennisteinsilmur í vindi“ sem listamaður að nafni Richard Long tók á ótilgreindum stað á Íslandi. Í samtali við blaðið Yorkshire Evening Post segist hann fljótlega hafa orðið leiður á myndinni og byrjað að skera hana upp í strimla, alls 20.000. Hefur hann selt hvern þeirra á einn dollara og á enn eftir að selja rúmlega 16.000 strimla áður en hann heldur með peningana til Íslands.

Selur hann strimlana með því að efna til sýningar sem hann nefnir „Hvernig getur maður orðið listamaður" og hefur farið með um landið. Er hann nú kominn til Leeds með uppákomu sína og stendur listunnendum þar í borg myndsnifsin nú til boða frá og með nk. mánudegi.

Frétt Yorkshire Evening Post

mbl.is