Smábátum fjölgaði úr 37 í 130 á Vestfjörðum á sex árum

Smábátar í höfninni á Flateyri.
Smábátar í höfninni á Flateyri. mbl.is/Ómar

Útgerðarmynstur á Vestfjörðum hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma. Í tíu sveitarfélögum fyrir vestan voru gerðir út 37 smábátar og 63 önnur skip árið 1997, segir í frétt Frétta í Vestmannaeyjum, en á síðasta ári voru smábátarnir orðnir 130 og öðrum skipum hafði fækkað niður í 40. T.d. voru 29 smábátar gerðir út í Bolungarvík á síðasta ári en þeir voru 8 fimm árum áður. Tveir ísfisktogarar hafa horfið úr plássinu á þessum tíma. Hlutur Bolvíkinga í heildarúthlutun fór úr 0,5% í 0,3% á tímabilinu. Fleiri slík dæmi eru nefnd, enginn smábátur var gerður út frá Flateyri 1997 en þeir voru 10 á síðasta ári.

Ísfirðingar eiga nú 18 smábáta og 9 önnur skip en hlutfallið var öfugt fyrir fimm árum. Aflahlutdeild Ísfirðinga hefur farið úr tæpum fjórum prósentum í tvö og hálft prósent.

Vakningin í smábátaútgerð á Vestfjörðum hefur þó verið mest á Suðureyri þar sem enginn smábátur var fyrir fimm árum en í dag eru þeir 17. Hnífsdalur er eini staðurinn á Vestfjörðum þar sem enginn smábátur var gerður út í fyrra, segir í Fréttum.

Vefur Frétta í Vestmannaeyjum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert