SUS lýsir stuðningi við stjórn Heimdallar

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér tilkynningu þar sem ályktun Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, er hörmuð og hún talin vera á misskilningi byggð, en í ályktun Varðar eru vinnubrögð fráfarandi stjórnar Heimdallar í aðdraganda síðasta aðalfundar félagsins hörmuð.

Í ályktuninni segir stjórn SUS, að vandséð sé hvernig stjórn fulltrúaráðsins geti talið það eðlilegt og í anda lýðræðis að krefjast þess að stjórn Heimdallar skrái fólk í Sjálfstæðisflokkinn sem aldrei hafi óskað eftir inngöngu og fólk sem gegni trúnaðarstörfum fyrir aðra stjórnmálaflokka.

Segist stjórn SUS telja að ákvörðun fyrrverandi stjórnar Heimdallar um frestun á afgreiðslu nýskráninga daginn fyrir síðasta aðalfund félagsins hafi verið í fullu samræmi við lög Heimdallar og skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins. Lýsir stjórn sambandsins yfir fullum stuðningi við þá ákvörðun sem og ákvörðun núverandi stjórnar Heimdallar um að bjóða umsækjendur velkomna til starfa og óska eftir staðfestingu á fyrri umsókn.

mbl.is