Frumvarp um skerðingu atvinnuleysisbóta ekki lagt fram

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, hefur ákveðið að leggja ekki fram á Alþingi frumvarp um að atvinnulausir fái ekki bætur fyrstu þrjá daga í atvinnuleysi. Árni sagði í samtali við Ríkisútvarpið í kvöld að hann hefði tekið þessa ákvörðun í morgun og tilkynnt ríkisstjórninni um hana og síðan fulltrúum samtaka verkalýðsfélaga í dag. Hann hefur einnig gert samkomulag við Samtök fiskvinnslustöðva og Starfsgreinasambandið um að gerðar verði breytingar á öðru frumvarpi, sem lagt hefur verið fram um að skerða greiðslur til fiskvinnslufyrirtækja þegar starfsfólk er sent heim vegna hráefnisskorts.

Árni sagðist telja mikilvægt að tekið verði til við endurskoðun á atvinnuleysisbótakerfinu í heild og sagðist vona að verkalýðshreyfingin komi að því máli. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa sagt að þeir væru ekki til viðtals um slíka hluti ef frumvarpið um skerðingu atvinnuleysisbótanna yrði knúið fram.

mbl.is