Fjölmenn friðarganga í Reykjavík

Frá friðargöngunni á Laugaveginum í kvöld.
Frá friðargöngunni á Laugaveginum í kvöld. mbl.is/Jim Smart.

Friðarhreyfingar stóðu sameiginlega að blysför niður Laugaveginn í kvöld. Gangan hófst frá Hlemmi klukkan 18 og lauk á Ingólfstorgi þar sem Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður flutti ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga. Lögreglan sagði gönguna fjölmenna, en talið er að allt að því fimm þúsund manns hafi tekið þátt en það er aðeins minna en var í fyrra. Þetta er 24. árið sem friðarganga er farin niður Laugaveg á Þorláksmessu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er talsverður fjöldi fólks í miðbænum og fer fjölgandi, en veður er frekar slæmt - gengur á með hvössum éljum.

Íslenskir friðarsinnar standa einnig fyrir friðargöngum á Þorláksmessu á Ísafirði og á Akureyri. Á Ísafirði var lagt af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18:00 og gengið niður á Silfurtorg. Þar var stutt dagskrá. Er þetta sjötta árið sem ganga þessi er haldin á Ísafirði.

Á Akureyri verður blysför gegn stríði. Hefst við Menntaskólann á Akureyri kl. 20:00. Gengið verður niður á Ráðhústorg og þar haldin stutt samkoma: Ávarp flytur Edward H. Huijbens doktorsnemi í Landfræðum. Þórhildur Örvarsdóttir syngur. Kjörorð blysfararinnar er: Bandaríkin út úr Írak. - Ísland úr stríðsliðinu.

mbl.is