Greinargerðin yfirklór

"HANN hefur orðið uppvís að ritstuldi og það er ekki nóg að skrifa greinargerð eftir slíkt framferði," segir Guðný Halldórsdóttir, dóttir Halldórs Laxness, um greinargerð dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, þar sem hann vísar á bug ásökunum um ritstuld eða óheiðarleg vinnubrögð í bók sinni Halldór.

"Við bíðum eftir því að maðurinn biðjist afsökunar," segir Guðný. "Ef hann gerir það ekki verðum við að fara að athuga okkar gang. Þetta er ekki líðandi. Það eru höfundarréttarlög í landinu og ég skil ekki afhverju hann á ekki að virða þau eins og aðrir." Í þessu sambandi nefnir hún að ekki gangi að taka sjálfstæða sköpun eftir rithöfund og snúa henni að eigin vild og gefa út aðra bók.

Guðný segir að hún hafi ekki lesið bókina og ætli ekki að gera það, en hún hafi gluggað í hana og greinargerðin sé bara yfirklór. "Það er alltaf að koma meira og meira í ljós það sem hann er að taka upp eftir öðru fólki og gera að sínum texta. Til dæmis úr bók Ólafs Ragnarssonar og annarri sem heitir Nærmynd af Nóbelskáldi.

Hann hefur varla skrifað orð í þessa bók, manngreyið." Að sögn Guðnýjar eru margar rangfærslur í bók Hannesar og rangt farið með.

"Ég veit ekki hvaða fengur er í því að eiga svona bók, sem er gerð á bak við alla og farnar ókurteisar leiðir að öllu," segir hún.

Guðný segist ekki geta sagt álit sitt á greinargerðinni. "Maðurinn stelur og fer svo í burtu en hann hlýtur að hafa vitað að þetta myndi koma upp," segir hún og gefur lítið fyrir að Hannes hafi verið sambandslaus við Ísland í útlöndum. "Árið 2004 eru öll börn í sambandi út um allan heim en þá þykist hann ekki getað svarað neinu. Svo kemur hann heim, hóar á blaðamannafund og dreifir einhverri greinargerð, en það hefur ekkert breyst."

Vill ekki tjá sig

Í greinargerðinni segir Hannes m.a. að ritdómur Páls Baldvins Baldvinssonar á Stöð 2 hafi verið mjög illa unninn og villur hans beri vitni um hroðvirknisleg vinnubrögð, en Páll Baldvin segir að hann vilji ekki tjá sig um ummæli Hannesar að svo stöddu. Ekki náðist í Helgu Kress, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert