Norðurljós hafa náð samningum við lánardrottna

Forsvarsmenn Norðurljósa kynntu skipulagsbreytingar á blaðamannafundi í dag. Á myndinni …
Forsvarsmenn Norðurljósa kynntu skipulagsbreytingar á blaðamannafundi í dag. Á myndinni eru Sigurður G. Guðjónsson, Gunnar Smári Egilsson, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Ragnar Birgisson. mbl.is/Valur

Endurfjármögnun Norðurljósa er lokið með samkomulagi við alla lánardrottna félagsins. Langtímaskuldir félagsins lækka úr 7,5 milljörðum í 5,7 milljarða. Hlutafé eftir samruna Norðurljósa og Fréttar, sem gengið var frá í gær, er rúmir 3 milljarðar. Eftir sameiningu og hlutafjáraukningu eru hluthafar Norðurljósa 23 talsins.

Stærstu hluthafar eru Baugur Group með 30,4%, Grjóti með 16,4% en það félag er m.a. í eigu Baugs og Fengs, Fons eignarhaldsfélag með 11,6%, Hömlur, sem er í eigu Landsbankans, með 7,5% og Kaldbakur 5,6%. Stefnt er að því að bjóða starfsmönnum fyrirtækjanna og félögum í tryggðarkerfi M12 að kaupa hlutabréf í Norðurljósum á næstu mánuðum. Ráðgert er að skrá félagið í Kauphöll Íslands á næsta ári.

Smærri hluthafar eiga samtals 17,7%, óseldir hlutir eru 10,8% og stendur til að selja þá á næstu vikum. Stefnt er að því að bjóða starfsmönnum fyrirtækjanna og félögum í tryggðarkerfi M12 að kaupa hlutabréf í Norðurljósum á næstu mánuðum. Ráðgert er að skrá félagið í Kauphöll Íslands á næsta ári.

Þetta kom fram á blaðamannafundi þar sem m.a. voru kynntar skipulagsbreytingar á Norðurljósum. Í gærkvöldi var gengið frá samruna Norðurljósa og Fréttar, sem gefur út Fréttablaðið og DV. Eftir samrunann munu Norðurljós samanstanda af þremur sjálfstæðum fyrirtækum: Íslenska útvarpsfélaginu, Frétt og Skífunni. Samhliða þessu hefur Skífan keypt verslunarrekstur BT, Office 1 og Sony-setursins.

Fram kom á fundinum að markmið nýja félagsins sé að efla núverandi starfsemi og sækja fram á nýjum sviðum, meðal annars með því að hefja stafræna sjónvarpsútsendingu 9. október nk. en það er afmælisdagur Stöðvar 2.

Í stjórn Norðurljósa eru Skarphéðinn Berg Steinarsson, formaður, Pálmi Haraldsson, varaformaður, Kristinn Bjarnason, Halldór Jóhannsson og Gunnar Smári Egilsson. Framkvæmdastjóri Norðurljósa verður áfram Sigurður G. Guðjónsson.

Íslenska útvarpsfélagið rekur sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2, Sýn, Popptíví, Bíórásina og Fjölvarpið, útvarpsstöðvarnar Bylgjuna, FM957, Létt 96,7, Skonrokk, X-ið og Stjörnuna. Hjá fyrirtækinu starfa 300 manns. Áætluð velta Íslenska útvarpsfélagsins í ár er 3,5 milljarðar. Í stjórn Íslenska útvarpsfélagsins eru Baltasar Kormákur, Davíð Scheving Thorsteinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Pálmi Haraldsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson. Útvarpsstjóri er Sigurður G. Guðjónsson.

Frá og með 1. febrúar tekur Sigríður Árnadóttir við starfi fréttastjóra Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir verður varafréttastjóri við hlið Þórs Jónssonar. Karl Garðarsson, fyrrum fréttastjóri, tekur við starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs. Páll Magnússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri dagskrársviðs. Marinó Guðmundsson er framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslenska útvarpsfélagsins og Skífunnar.

Frétt gefur út Fréttablaðið, DV og vikuritið Birtu og rekur auk þess Póstdreifingu og Vísi.is. Hjá fyrirtækinu starfa um 135 manns auk 1.300 blaðbera. Áætluð velta Fréttar í ár er 2,1 milljarður. Í stjórn Fréttar eru Árni Hauksson, Einar Þór Sverrisson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Ragnar Tómasson og Skarphéðinn Berg Steinarsson. Útgefandi Fréttar er Gunnar Smári Egilsson.

Skífan rekur hljómplötuútgáfu og verslanir undir nafni Skífunnar, Hlljóðfærahúsið og kvikmyndahúsin Smárabíó, Regnbogann og Borgarbíó, hljóðverin Stúdíó Sýrland og Grjótnámuna og hefur nú tekið yfir rekstur sjö BT-verslananna, þriggja Office 1 verslana og Sony-setursins. Hjá fyrirtækinu starfa 260 manns. Áætluð velta Skífunnar í ár er 4,5 milljarðar. Í stjórn Skífunnar eru Almar Örn Hilmarsson, Davíð Scheving Thorsteinsson, Kristín Jóhannesdóttir, Pálmi Haraldsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson. Framkvæmdastjóri Skífunnar er Ragnar Birgisson.

Sigríður Árnadóttir tekur við starfi fréttastjóra Stöðvar 2 og Bylgjunnar …
Sigríður Árnadóttir tekur við starfi fréttastjóra Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1. febrúar.
mbl.is