Björn: „Fyrsta boðorðið er að hindra að frelsið sé misnotað“

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. mbl.is

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði á kjördæmisþingi reykvískra sjálfstæðismanna í dag að það verði að tryggja að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts. „Fyrsta boðorðið er að hindra, að frelsið sé misnotað,“ sagði Björn í ræðu sinni.

Hann sagði að ríkisstjórnin hafi þegar sett af stað athugun á viðbrögðum við þróuninni á þeim sviðum, „þar sem mest reynir á innlenda samkeppni, það er á fjölmiðlamarkaðnum á vegum menntamálaráðherra og varðandi meiri samþjöppun og minni samkeppni en áður í einstökum atvinnugreinum á vegum viðskiptaráðherra. Í báðum tilvikum er markmiðið að stuðla að þróun reglna, sem tryggja að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts.

Þetta er nauðsynlegt við núverandi aðstæður og í fullu samræmi við önnur viðbrögð stjórnvalda við breytingum í viðskiptalífinu í áranna rás. Ætti að vera sérstaklega traustvekjandi, að til þessara starfa skuli gengið í ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Það tryggir, að ekki er gengið til þessa verks með hugsjónir vinstrisinna að leiðarljósi heldur með virðingu fyrir gildi samkeppni.

Hér skal engu spáð um niðurstöður þessara nefndarstarfa. Fyrsta boðorðið er að hindra, að frelsið sé misnotað. Annað að móta reglur um viðbrögð, sé það engu að síður gert. Hið þriðja að stuðla að endurreisn markaðsaflanna, ef tjón hefur verið unnið,“ sagði Björn í ræðu sinni sem hægt er að nálgast á heimasíðu hans, Björn.is

mbl.is