Ákvörðun tekin um íslenskun Microsoft á næstu 2-3 vikum

Microsoft hugbúnaðarfyrirtækið er að íhuga hvort unnt reynist að íslenska umhverfi Microsoft fyrir notendur hér á landi og er ákvörðunar að vænta frá höfuðstöðvum fyrirtækisins á næstu vikum.

Umræðu um hugsanlega þýðingu á Microsoft-umhverfinu og hugsanlegan kostnað hefur áður borið á góma og segir Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, að umræðan sé á lokastigi og tilraunir sem gerðar hafi verið ýti undir að þetta sé mögulegt.

"Það er búið að safna öllum upplýsingum sem þarf til að taka ákvörðun og nú er bara að sjá hvernig ákvörðunarferlinu reiðir af," segir Elvar.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í fyrradag tillögu menntamálaráðherra að beina því til ríkisaðila að hugbúnaður á íslensku hefði ávallt forgang fram yfir annan hugbúnað að því gefnu að það hefði ekki verulega útgjaldaaukningu í för með sér fyrir ríkissjóð.

Að sögn Ólafs William Hand, hjá Apple IMC á Íslandi, er nú unnið að íslenskun á hugbúnaði sem fylgir með Apple-tölvum, þ.m.t. kvikmyndaklippibúnaði, dagatölum og ritvinnsluforritum. Ekki standi þó til að þýða íslenska stýrikerfi Apple.

Að sögn Bjarna Rúnars Einarssonar, áhugamanns um Linux-stýrikerfið, hefur hópur áhugamanna tekið að sér að þýða algeng notendaskil fyrir Linux yfir á íslensku á undanförnum árum. Eitt þessara kerfa, KDE, sé mjög vinsælt en það inniheldur vefrásir, póstforrit og einföld ritvinnsluforrit og má hlaða niður ókeypis af Netinu.

Að sögn Bjarna reyndu áhugamenn um Linux að vekja athygli fyrrv. menntamálaráðherra á þeim möguleika að nota kerfið en áhugi var ekki fyrir hendi. Meðal annars hafi verið sótt um styrk til ráðuneytisins til að koma verkefninu á traustari grunn án árangurs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert