Vildi vita hvernig fjármagna á styrkingu sérsveitar

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, vildi í upphafi þingfundar í dag vita hvernig fjármagna ætti styrkingu sérsveitar lögreglu sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, kynnti í gær. Sagði Helgi, að sama dag og Björn boðaði að sérsveitin yrði efld kæmi Björn fram í fjölmiðlum með ásakanir á hendur dómara um ábyrgðarleysi, þegar þeir vektu athygli á fjárhagsstöðu dómstóla.

Helgi sagði að gert væri ráð fyrir allt að 250 milljónum króna á ári í þetta gæluverkefni og bernskudrauma Björns Bjarnasonar en ekki væri gert ráð fyrir þeim á fjárlögum. Spurði Helgi hvort sérsveitirnar ættu að taka við verkefnum af bandaríska hernum. Þá spurði Helgi hvort þessi sérsveitarleiðangur, eins og hann orðaði það, væri með vitund og vilja Framsóknarflokksins.

Björn vísaði til þess að umræður verði utan dagskrár á Alþingi á fimmtudag um sérsveitarmál og eðlilegt væri að efnislegar umræður um málið færu fram þá. Björn sagðist hafa talið að unnið væri að málefnum dómstóla á vegum dómsmálaráðuneytisins og dómsmálaráðs. Þá sagði hann, að alrangt væri, sem komið hefði fram í ályktun Dómarafélagsins, að réttaröryggi landsmanna sé stefnt í voða og hann hefði sagt í fjölmiðlum í gær slík yfirlýsing væri ábyrgðarlaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert