„Skelfileg sjón að horfa á skipið fara upp í fjöruna“

Björgunarsveitarmaður fylgist með Baldvin Þorsteinssyni á strandstað í Skarðsfjöru.
Björgunarsveitarmaður fylgist með Baldvin Þorsteinssyni á strandstað í Skarðsfjöru. mbl.is/Jónas Erlendsson

Loðnuskipið Bjarni Ólafsson AK reyndi að aðstoða Baldvin Þorsteinsson í nótt er skipið rak vélarvana að landi, en veður var mjög slæmt og aðstæður allar mjög erfiðar. „Þetta var mjög erfitt. Við vorum komnir upp á fimm faðma dýpi þegar við vorum að reyna að draga Baldvin út úr briminu. Það slitnuðu allir vírar og spilið gaf sig. Skipið tók aðeins niður hjá okkur og einn skipverji slasaðist á hendi þegar við fengum brot yfir okkur,“ sagði Þorkell Pétursson, stýrimaður á Bjarna Ólafssyni í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. „Það var skelfileg sjón að þurfa að horfa á skipið fara upp í fjöruna og geta ekkert gert.“

Þorkell sagði að þeir hafi nýlega verið komnir á miðin og búnir að taka aðeins eitt kast þegar Baldvin fékk í skrúfuna og óskaði eftir aðstoð. „Við vorum komnir að Baldvin mjög fljótlega og vorum á fimm faðma dýpi þegar við komum að honum. Við náðum fyrst að setja tóg í hann, eftir að þeir höfðu skotið úr línubyssu yfir til okkar. Fyrst settum við í hann að framan og náðum að snúa honum aðeins og settum síðan snurpuvír yfir í hann, eftir mikið bras. Við reyndum að draga hann á spilinu en bremsurnar á því gáfu sig, glussarör splundraðist með miklum látum. Við reyndum síðan að festa vírinn með lás, en hann slitnaði og það var ekki við neitt ráðið. Þetta var bara orðið og seint,“ sagði Þorkell.

Hann sagði að einn skipverjanna hefði slasast þegar þeir fengu brot á sig. Hann kastaðist til á dekkinu og lenti illa og er bólginn á hendi. Þorkell sagði að hann væri ekki alvarlega slasaður.

Bjarni Ólafsson er nú á leið til Seyðisfjarðar með 300 tonna afla sem skipið fékk í fyrsta og eina kastinu í nótt. Þar sem snurpuvírinn fór allur í sjóinn þegar reynt var að draga Baldvin þurfa þeir að fá annan vír til að geta hafið veiðar á ný.

Verðskipið Týr er væntanlegt á strandstað um hádegisbilið. Veður er skaplegt á strandstað, en töluvert brim. Skipið hefur aðeins snúist til hliðar í morgun, eftir að það strandaði.

mbl.is/Kristinn
mbl.is