Togari strandaði við Grundarfjörð

Togarinn, Ingimundur SH-335, 458 brúttótonna ísfisktogari, strandaði við Vesturboða á Grundafirði á sjöunda tímanum í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Togarinn losnaði af sjálfsdáðum upp úr kl.20 og sigldi í framhaldinu til Njarðvíkur í slipp. Hringur SH, nærstaddur togari, var tilbúinn til að koma til aðstoðar ef til þyrfti en til þess kom ekki.

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi, Björg, og björgunarsveitir á Snæfellsnesi voru kallaðar út ásamt því að Landhelgisgæslan var látin vita um málið. Ekki var talin ástæða til að senda þyrlu á vettvang þar sem takmörkuð hætta var á ferðum. Hæglætisveður er á þessum slóðum núna suðaustanátt með 9-13 m/sek.Allir skipverjar eru heilir á húfi og enginn leki kom að togaranum.

mbl.is