ÍE og Kári Stefánsson sýknuð af kröfum Læknalindar

Íslensk erfðagreining (ÍE) og Kári Stefánsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, voru sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun af kröfum Læknalindar sem krafðist 24,5 milljóna bóta úr hendi hvors aðila um sig, ÍE og Kára.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms að aðila hafi greint á um málavöxtu í veigamiklum atriðum. Af hálfu Læknalindar var því haldið fram að í lok apríl 2002 hafi Kári óskað eftir því við Guðbjörn Björnsson, stjórnarformann Læknalindar, að fyrirtæki hans tæki yfir og hefði umsjón með öllum lífsýnatökum fyrir Íslenska erfðagreiningu. Hafi tilboðið gengið út á að Læknalind sæi til þess að þáverandi kostnaður ÍE vegna lífsýnatöku myndi lækka um 25-50% en fengi þess í stað öll útgjöld greidd vegna verkefnisins ásamt tiltekinni aukagreiðslu.

Hafi Kári sagt að starfsemi Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (ÞMR) í Nóatúni og Hæðasmára væri illa rekin og best væri að koma verkefnunum öllum til einkaaðila. Þá hafi komið fram hjá honum að Læknalind gæti fengið allt húsnæði ÞMR gegn hóflegri leigu auk allra tóla og tækja sem til starfseminnar þyrfti. Hafi Kári fullyrt að hann hefði fullt umboð ÍE til að semja um þetta og hafi Læknalind samþykkt þetta.

ÍE og Kári Stefánsson hafi hins vegar hafnað því alfarið í málinu að samningar hafi tekist um að Læknalind tæki yfir alla lífsýnatöku fyrir ÍE. Hins vegar hafi oft komið upp í umræðum Kára og Guðbjörns sú hugmynd að Læknalind gæti rekið ÞMR með skilvirkari og ódýrari hætti en þá hafi verið. Hafi meginkjarninn í þeirri hugmynd, að Læknalind tæki að sér rekstur ÞMR eða kæmi inn með öðrum hætti, verið sá að með því mætti ná fram lækkun á kostnaði en á þessum tíma hafi ÍE unnið að leiðum til að draga úr kostnaði við rekstur ÞMR.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að Læknalind hafi ekki sýnt fram á það með haldbærum rökum að samningur hafi komist á milli fyrirtækisins og ÍE um að það tæki að sér alla eða hluta sýnatöku fyrir ÍE og yrði því að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Með sömu rökum var hafnað þeirri málsástæðu Læknalindar að stofnað hafi verið til samningsígildis milli félagsins og ÍE.

Læknalind var gert að greiða ÍE og Kára samtals 300.000 krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert