Kallar ekki á sérstaka endurskoðun á jafnréttislöggjöf

Árni Magnússon félagsmálaráðherra telur að fara eigi varlega í breytingar á jafnréttislögum, inntur eftir viðbrögðum við ummælum dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu í gær. Þar var haft eftir dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, að jafnréttislögin væru barn síns tíma. Tilefni ummælanna var niðurstaða kærunefndar jafnréttismála, sem heyrir undir félagsmálaráðuneyti, um að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn jafnréttislögum með því að skipa Ólaf Börk Þorvaldsson í embætti hæstaréttardómara en ekki Hjördísi Hákonardóttur.

"Það má kannski segja það um alla skapaða hluti, öll mannanna verk, að þau séu börn síns tíma. Annars eru þetta tiltölulega ný lög, fjögurra ára gömul. Án þess að ég vilji útiloka það með öllu að það kunni að vera þörf á því að þróa þessa löggjöf þá tel ég að þetta mál sem slíkt kalli ekkert sérstaklega á það. Mér finnst þetta mál ekki kalla á neina sérstaka endurskoðun laganna," segir Árni.

Hann segir álitið endanlegt í stjórnsýslunni, en það sé svo undir málsaðilum komið hvort málið verður rekið fyrir dómstólum. Árni kveðst enga skoðun hafa á því hvort niðurstaða kærunefndarinnar hafi verið rétt. "Það hefur verið mitt mottó í samskiptum mínum við þær úrskurðarnefndir sem undir félagsmálaráðuneytið heyra að ég hvorki skipti mér af starfi þeirra né niðurstöðunni. Þær eiga að vera sjálfstæðar í stjórnsýslunni og það er mikilvægt að þær séu það," segir Árni.

Eigum talsvert í land í jafnréttismálum

"Ég er hvorki hneykslaður né hissa á þessum ummælum dómsmálaráðherra. Það eru skiptar skoðanir á þessu ákvæði laganna og það hefur svo sem komið upp áður að menn hafa velt fyrir sér hvort þetta er réttasta framsetningin. Menn hafa velt fyrir sér þessari túlkun laganna að það beri að beita jákvæðri mismunum ef karlar í viðkomandi starfi eru fleiri en konur eða öfugt.

Það hefur hver sína skoðun á því. Þessum lögum er hins vegar ætlað að tryggja jafnrétti kynjanna. Það er meginmarkmiðið með þeim. Ég tel að við eigum talsvert í land í jafnréttismálum og vil fara mjög hægt í allar breytingar sem gætu orðið til þess að draga úr árangri á því sviði," segir Árni.

Í fullu samræmi við nágrannalöndin

Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir löggjöf um jafnan rétt og stöðu karla og kvenna vera í fullu samræmi við það sem gerist í nágrannalöndunum. "Þessi lög eru frá 2000, löggjöfin var í heild sinni endurskoðuð þá og hún er í samræmi við það sem er að gerast í kringum okkur. Auðvitað má alltaf endurskoða lögin, en aðrar þjóðir eru ennþá með sína jafnréttislöggjöf sem gengur út á sértækar aðgerðir. Við stöðuveitingu ber að líta til kynja- og jafnréttissjónarmiða. Álit kærunefndarinnar virðist vera afdráttarlaust í þessu tilviki," segir Margrét María.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert