Eðlilegt að hægt sé að skjóta úrskurðum kærunefndar til ráðherra

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að ástæða sé til að huga því, hvort ekki eigi að setja í lög ákvæði um það, að unnt sé að kæra álit kærunefndar jafnréttismála til æðra stjórnvalds, það er til félagsmálaráðherra.

Björn segir á heimasíðu sinni, að umboðsmaður Alþingis hafi gagnrýnt endanlegt vald nefnda á borð við kærunefndina og telji réttarstöðu borgaranna geta verið betri gagnvart þeim því réttur til málskots til æðra stjórnvalds eigi að vera fyrir hendi. Segir Björn að umboðsmaður og sérfræðingar í stjórnsýslurétti séu sammála um, að veitingarvaldshafi þurfi aðeins að færa rök fyrir því, hvers vegna hann skipar einhvern í embætti, honum sé ekki skylt að fara í mannjöfnuð, þ.e. færa rök fyrir því, hvers vegna hann hafnaði einhverjum umsækjanda.

Björn segir, að meginkrafan á hendur honum í máli fyrir kærunefndinni vegna skipunar hans í embætti hæstaréttardómara, hafi verið að hann skýrði, hvers vegna hann skipaði ekki kæranda, það er konuna, í embættið.

„Ég hafnaði þeirri kröfu alfarið og taldi kröfu um slíkan mannjöfnuð ekki byggjast á lögmætum forsendum. Kærunefndin ber hins vegar saman umsækjendur og telur sig hafa lögheimildir til þess, þótt hún eigi aðeins að leggja mat á það, hvort um sé að ræða kynferðislega mismunun. Ef þessi afskipti af forsendum veitingarvaldshafans rúmast innan jafnréttislaganna, þarf að þrengja rétt kæurnefndinnar og laga hann að almennum stjórnsýslureglum," segir Björn.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert